Hið árlega veiðiblað Veiðihornsins er komið út

Veiði 2019, Veiðihornið
Svona lítur kápan út þetta árið, stórlaxasporður!

Nú fyrir fáum dögum kom út hið árlega veiðiblað Veiðihornsins sem gestir verslunarinnar geta sótt sér endurgjaldslaust að vanda. Það fer vel á því að það liggi fyrir nú þegar Veiðihornið er að auki að standa fyrir Simms helgi, sem við greinum frá í annarri frétt hér á síðunni.

Ólafur Vigfússon annar eigenda Veiðihornsins sagði í samtali að það væri sérstakt gleðiefni að gefa þetta blað út og til alls væri vandað sem best væri á kosið. „Við höfum gefið blaðið okkar, Veiði, út síðan 2012 og er hér því á ferð 8. árgangur. Alveg þangað til á síðasta ári var blaðið eingöngu helgað stangaveiðihluta Veiðihornsins. Í fyrra, í tilefni af 20 ára afmæli okkar stækkuðum við blaðið í 124 síður og bættum skotveiðinni við.  Auk þess fluttum við  útgáfudagsetningunar fram um einn mánuð eða þar til 1. maí en áður höfðum við alltaf gefið blaðið út 1. júní. Af tilefni afmælsins í fyrra splæstum við einnig í vandaðri pappír.

Okkur fannst þessi vandaði pappír gefa blaðinu eitthvað extra svo við ákváðum að halda okkur við þann pappír áfram.  A.m.k. í ár. Í ár stækkum við blaðið svo í 128 síður og upplagið um 1.000 eintök en full þörf var á því þar sem blaðið var búið hjá okkur í september í fyrra.“

Veiðihornið
María Anna og Ólafur, eigendur Veiðihornsins veiða nú meira erlendis en hér heima…

En það hlýtur mikil vinna að liggja að baki slíkrar útgáfu?

„Það er gríðarleg vinna á bakvið þessa útgáfu enda viljum við gera þetta vel og af metnaði. Það er unnið fram á nætur vikum saman við að setja upp og ritstýra verkinu.  Við erum hins vegar heppin því það eru þeir bestu á sínu sviði sem koma að þessu með okkur.  Heimir Óskarsson á allan heiðurinn af útliti og svo fáum við að kíkja í og velja úr myndasafninu hans Golla.  Báðir eru hörku veiðimenn og hafa þá tilfinningu fyrir veiði sem er nauðsynleg til þess að útkoman verði góð.

Við erum að veiða út um allan heim á veturna og tökum alltaf með okkur eitt eða tvö blöð til að skilja eftir í veiðihúsum á fjarlægum slóðum til gamans.  Alls staðar sem við komum og sýnum blaðið okkar fáum við klapp á bakið fyrir blaðið.  T.a.m. veiddum við í vetur með eigendum einnar stærstu veiðibúðar í Bandaríkjunum.  Ýkjulítið pissuðu þeir á sig af hrifningu þegar þeir flettu blaðinu okkar og spurðu hvernig við færum að þessu á þeim örmarkaði sem við störfum á.  Svarið er einfalt.  Mikil vinna og samstarf við þá bestu. Það er svo sem hægt að gera þetta á auðveldari og ódýrari hátt en við
viljum gera þetta af miklum metnaði eins og helst allt sem við gerum og sendum frá okkur.“