Stórlaxinn talsvert laskaður!

Þessi erlendi kappi landaði 100 cm hæng frá eystri bakka Hólsár í vikunni. Sjá má að laxinn er talsvert laskaður, líklega eftir net.

Veiðileyfasalinn Kolskeggur greindi frá því í vikunni að tveir 100 cm laxar hefðu veiðst frá eystri bakka Hólsár. Fáeinir slíkir fiskar hafa verið dregnir á land á þessu rólegheitasumri, en annar umræddra laxa sem Kolskeggur greindi frá var nokkuð sérstakur.

Það má glöggt sjá á myndinni sem Kolskeggur birti á vefsíðu sinni og við leyfum okkur að endurbirta hér. Laxinn er með áberandi áverka um miðjan bolinn. Lítur út fyrir að vera netaför. Og við nánari skoðun er fremri hluti bakugga laskaður að auki. Lax þessi hefur lent í hremmingum á leið sinni á æskustöðvarnar.