Laxá í Leir byrjaði vel

Haukur Geir, Laxá í Leirársveit
Haukur Geir Garðarsson með flotta hrygnu úr Laxfossi.

Laxá í Leirárvseit opnaði í gær og fór vel af stað, eins og annars staðar hingað til. Nokkuð langt síðan að menn sáu fyrstu laxana í ánni og opnunin kom þannig séð engum á óvart. Við fengið skeyti frá Hauki Geir Garðarssyni og hann sagði:

„Í gær opnuðum við Laxá í Leirársveit, en veitt er með 4 stöngum fyrstu dagana. Gott vatn var í ánni en þar sem það haugrigndi inn í dal og í Skarsheiðinni um morguninn varð áin óveiðandi eftir hádegi.  Sett var í 9 laxa og var áberandi hvað laxinn er vel haldinn. Þá veiddist fallegur smálax og sáust fleirri í þeirri stærð sem lofar góðu varðandi framhaldið.“