Elliðaárnar. Laxar í Teljarastreng. Mynd Heimir Óskarsson.

Mikið var rætt um laxgengd, laxveiði og aflatölur í Elliðaánum í sumar og oft talað um að veiðin væri ekki í samræmi við göngutölur úr teljaranum. Að áin hlyti að eiga mikið inni. Á Facebook síðu  áhugamanna um árnar er nú fróðleg umræða um göngur og veiði í ánni. Göngutölurnar hafi ekki endilega sagt alla söguna.

Alls veiddust 563 laxar s.l. sumar, 26 löxum meira en í fyrra. Á vef SVFR segir að 2480 fiskar hafi skráð sig í teljarann, en að undir lokin hafi verið talsvert af sjóbirtingi. Svavar Hávarðsson ristjóri Fiskifrétta er mikill áhugamaður um Elliðaárnar og segir í umræddum þræði á FB að hann hafi fylgst með teljaranum í allt sumar og að hann „tippi á að laxagangan hafi verið 13-1400 laxar.“ Mikið hafi komið af smáum sjóbirtingi síðasta mánuðinn og að teljarinn hafi ekki verið stilltur inn á neina lágmarkslengd á fiski. Að 46% af göngunni hafi verið fiskur sem var 50 cm og undir, og að 800 fiskar hafi verið 30 cm eða smærri. „Eða svona skil ég þetta. Getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér, en þetta segja tölurnar mér. Auk þess sem myndirnar úr teljaranum sýndu þetta seinnipartinn í sumar. Þá sá maður þessa litlu birtinga í hópum en fáa laxa,“ segir Svavar

Einnig kemur fram á þræðinum að greining talna úr teljaranum sé í höndum Jóhannesar Sturlaugssonar hjá Laxfiskum og menn séu spenntir að sjá hverjuu hann teflir fram.