Víðar risableikjur í Eyjafirði en í Eyjafjarðará

Guðrún með Selfie af sér og bleikjunni!

Guðrún Una Jónsdóttir, formaður SVFA skrifaði í kvöld veiðisögu úr Hörgá í Eyjafirði, á sem hún stundar mikið og er mikið vanmetin sjóbleikjuá. Hún lenti sem sagt í ævintýri.

Gefur Guðrúnu orðið: „Leiðin lá í Hörgá í morgunsárið. Áin sjómikil eftir rigningu næturinnar en maður lætur það nú ekki slá sig út af laginu þegar veiði er annars vegar. Keyrði sem leið lá upp Hörgárdalinn. Var að vona að ofan Barkár væri flaumurinn minni en í dag varð mér ekki að ósk minni. Það var þó vel veiðanlegt og setti fljótlega í tvo fiska, annar var á í smá stund en fór þá sína leið. Sá seinni gerði sér lítið fyrir og sleit 7 kg taum eftir að hafa rokið á Krókinn.

Jæja þetta ætlar ekki vera dagurinn minn í dag hugsaði ég með mér. Keyrði áfram út dalinn fagra og skoðaði svæðið fyrir neðan Gerði en ekkert líklegt þar við þessar aðstæður.

Ákvað að enda í Helguhylnum þar sem ég hafði reyndar tekið nokkur köst um morguninn án þess að verða vör.

Í þetta miklu vatni er klikkað að standa og kasta í þennan hyl, hávaðinn er ærandi og flaumurinn hrikalegur. Ekki beint veiðilegt en alltaf fiskur þarna, sama hvað. Klukkan var að smella í eitt og ég farin að huga að heimferð þegar rifið var í línuna og stuttu síðar hreinsaði myndarleg bleikja sig upp úr hylnum. Fjárinn sjálfur, ég hafði húkkað stóra bleikju í bakuggann í Helguhylnum.

Nú voru góð ráð dýr. Bráðin var að vonum alveg tryllt rauk út í strauminn hvað eftir annað og átti ég í mesta basli að halda henni í hylnum með fimmuna að vopni. Vissi sem var að ég hefði ekki lappir til að elta hana niður alla á. Tókst smá saman að draga hana inní vikið en þurfti að taka fast á henni.

Var farin að sjá fyrir endann á þessu ævintýri þegar bang,stöngin brotnar !! Rétt næ í brotna stangarbútinn áður en hann hverfjur í hvítfissið og toga vinkonu mína á þurrt. Veit ekki hvor var fegnari að ævintýrinu lyki ég eða bleikjan. Var ekki með málband en tók mælingu með stönginni og sennilega verið í kringum 60 sm.

Hljóp með hana upp fyrir fossinn til að létta henni lífið aðeins eftir þessi slagsmál. Bleikjan var frelsinu fegin og synti sína leið en ég stóð eftir með hjartað á fullu og brotna stöng.“