Halla Bergþóra Björnsdóttir, Æðarfossar, Laxá í Aðaldal
Halla Bergþóra Björnsdóttir með stórglæsilegan hæng neðan við Æðarfossa í morgun. Myndina sendi Jón Helgi Björnsson.

Laxá í Aðaldal og Elliðaárnar opnuðu báðar í morgun og var líf og fjör á bökkunum þar eins og nánast alls staðar annars staðar það sem af er vori og sumri. Við erum ekki með neinar heildartölur enn sem komið er, en líflegt var það!

Að venju voru það Laxamýrarmenn og gestir sem opnuðu Laxá formlega neðan Æðarfossa en langt er síðan að menn urðu þar varir við fiskför. Eflaust er kominn lax langt upp í á þegar hér er komið sögu. En að venju voru það Bjargstrengur og Breiðan sem nutu fyrstu kasta veiðimanna og eins og sjá má af myndinni sem að Jón Helgi Björnson sendi okkur af Höllu Bergþóru systur sinni, voru það engir smáfiskar sem voru að sýna sig. Við komum síðar í dag með veiðitölur.

Anna Sif Jónsdóttir, Elliðaárnar
Reykvíkingur ársins 2017, Anna Sif Jónsdóttir með fyrsta laxinn úr ánum í morgun. Mynd Stjáni Ben/SVFR

                                 Fjórir á fyrsta klukkutímanum

Í Elliðaánum opnaði „Reykvíkingur ársins“ árnar sjöuda árið í röð. Að þessu sinni var það Anna Sif Jónsdóttir, formaður Foreldrafélags Breiðholtsskóla sem að var valin og hún landaði fyrsta laxi sumarsins. Að þessu sinni brá þó svo við að sá lax kom ekki úr Sjávarfossi heldur úr Breiðunni. Anna Sif, sem naut aðstoðar Ásgeirs Heiðars, landaði þar fallegum 4-5 punda laxi og svo öðrum nokkrum mínútum seinna í Brúarkvörn. Á sama tíma var annar gestur að landa laxi í Sjávarfossi og síðan var komið að Degi borgarstjóra a Breiðunni og verður líklega lax í kvöldmatinn hjá honum, því hann landaði þeim fjórða á fyrsta klukkutímanum. En líkt og með Laxá í Aðaldal, þá munum við uppfæra þessar fréttir síðar í dag með nýjum veiðitölum.

Ekki er allt upptalið, Vatnsdalsá opnar í dag, en eftir hádegið. Menn sofa út í Vatnsdalnum á opnunardeginum. En við verðum með fréttir að norðan líka þegar líður á daginn og kvöldið.