Tungufljótið fullt af fiski

Einn þekktasti og besti sjóbirtingsveiðistaður landsins er Syðri Hólmi í Tungufljóti sem hér sést í fallegri haustkvöldsól - Mynd Ólafur Guðmundsson

 

Sjóbirtingsveiði lauk formlega í síðustu ánum s.l. fimmtudag og vonumst við til að geta birt einhverjar tölur úr þeirri veiði á næstunni. Byrjum í dag með því að flytja frétt frá Tungufljóti sem var gjöfult í sumar, enda mikið af fiski á ferðinni.

Tungufljót
Fallegur sjóbirtingur kominn á land við Syðri-Hólma – Mynd Ólafur Guðmundsson

Svo virðist sem að 2016 hafi verið gott sjóbirtingsár, a.m.k. var nóg af fiski, en eðli málsins samkvæmt  eru skilyrði ekki alltaf upp á það besta á haustin þegar besti veiðitími birtingsins er. Ólafur Guðmundsson hefur lengi verið okkar helsta upspretta frétta úr Tungufljóti og Vatnamótum og hann var á vettvangi í Tungufljóti í blálok verrtíðarinnar að þessu sinni. Gefum Ólafi orðið:  „Fljótið hefur gefið um 300 fiska sem er bara nokkuð gott miðað við ástund en veitt var aðallega um helgar. Þarna má nú aðeins veiða á flugu. Ég skrapp þarna í einn dag, þann 18.október oglandaði tólf fiskum. Áin er full af fiski og það kom mér á óvart að Syðri hólminn er fullur af geldfisk, sem er bara jákvætt fyrir komandi ár.“