Fallegur lax.

Sporðaköst greindu á dögunum frá skemmtilegri tilviljun sem átti sér stað á bökkum Laxár á Ásum þar sem hjón veiddu sinn hvorn 102 cm laxinn með árs millibili í sama hylnum og næstum upp á dag. Tilviljanir eru ekki óalgengar í stangaveiði, hér eru tvö skemmtileg dæmi sem ritstjóri upplifði sjálfur…

Fyrir all nokkrum árum var ritstjóri oft á veiðum í Álftá á Mýrum. Oftast tvisvar á sumri, um hásumar og aftur um haust. Einn aðal veiðistaðurinn heitir Verpi og er stuttur djúpur hylur á milli lágra klappa. Þetta er bara mínútna gangur frá veiðihúsinu og gengið ofan í skoru að vestanverðu. Aðeins upp með henni til að ná fyrstu köstunum í hvítfyssið þar rennur ofan úr Laxalóni, sem er næsti veiðistaður fyrir ofan. Fallegur, en ekki eins gjöfull og Verpið.

Verpið var mikill uppáhaldsstaður okkar og oft veiddum við þar vel. Stóðum í efri skorunnni að vestan og köstðum fyrst að skoru í klettinum á móti. Þar framan við lágu alltaf laxar og oft all margir. Síðan var fiskjar von niður alla hina stuttu breiðu þar til kom að þverklöpp neðst i hylnum. Það gaf oft vel að kasta niður að þverklöppinni og strippa til baka.

En besti tökustaðurinn var framan við skoruna austanmegin, kastað rétt upp fyrir hana og flugan láti berast þar yfir. Þar fékk hún fínt rennsli og þar veiddum við oft vel. Eitt sumarið vorum við frekar seint í fyrri túrnum. Farið að líða á ágúst og lítið af nýjum fiski. Talsvert af laxi þó. Eftir að hafa kastað all nokkrum flugum upp og niður um allt Verpið, var óvart komin á fluga sem ég hafði aldrei notað áður. Black Labrador númer 12. Þetta var fluga sem ég á því miður ekki lengur, en Sigurður Örn Einarsson sem þá var skrifstofustjóri í Seðlabankanum hafði gefið mér hana. Tilefnið var veiðiviðtal sem ég átti við hann og hann var að segja mér frá stærstu löxunum sínum. Flestir voru þeir úr Víðidalsá og þessi fluga kom furðu oft við sögu.

Nema hvað, eins og fyrir töfra, var hún nú komin á tauminn og beint út af skorunni kom fínasta taka. Þetta reyndist vera 7 punda hængur, lítið eitt leginn. En það skrýtna var að hann hafði ekki náð flugunni þótt að vel hefði sést til hans renna sér á hana. Taumurinn var vafinn yfir hausinn og flugan föst undir kverkinni. Blýföst þar.

Næsta sumar, nánast upp á dag, var ég aftur staddur þarna. Reyndi ýmsar flugur og laxarnir að stökkva um allan hyl. Eftir einar 4-5 flugur datt mér í hug að reyna aftur Black Labrador númer 12, sömu fluguna og sumarið áður, flugu sem ég hafði þá aldrei reynt fyrr og reyndi aldrei aftur eftir þennan umrædda dag. Nema, að auðvitað tók lax aftur út af skorunni. Þétt taka og á innan við tíu mínútum var 7 punda hæng landað. Hann var nákvæmlega eins og laxinn frá sumrinu áður. Jafn þungur, jafn langur, jafn leginn. Og taumurinn lá yfir hausinn með fluguna í kverkinni!

Þetta hlýtur að hafa eitthvað haft með straumlagið að gera.

Mynd -gg.

Nokrum árum síðar var ritstjóri með eiginkonunni í Laxá á Ásum. Í fyrsta og eina skiptið. Áttum tvær vaktir og á þeirri fyrri var Fluguhylur einn þeirra hylja sem í boði voru. Við eyddum þar talsverðum tíma undir lok vaktarinnar, enda fallegur staður og lax að sýna sig þar víða. Takan var þó dræm. Einn kom þó í long tail Black Sheep númer 12, en lak fljótt af. Nú voru góð ráð dýr, aðeins hálftími eftir og tiltrú á þetta venjulega lítil. Var þá skoðað í boxin og þar kúrðu tvær afar smáar flugur, Munroe Killer var önnur Black Sheep hin. Þetta var á þeim árum að örflugur voru að byrja að ryðja sér til rúms. Þessar flugur voru nr 18 og óhætt að segja að við hefðum litla trú á þeim. En hvers vegna ekki, ekki hægt að segja að annað hefði gengið hjá okkur. Munroe Killer varð því fyrir valinu og ég fór á undan.

Út af lítilli grastorfu kom rosaleg negling og ég fékk strax trú á örflugum. Þetta var fjörugur hængur sem tók nokkra stund að spekja og stuttu eftir tökuna tók hann roku niður með öndverðum bakka, stökk, og lenti uppi á landi hinu megin! Þar spriklaði hann sem óður væri og tókst loks að brölta aftur útí. Þetta var nýlega genginn 6 punda hængur. Örflugan var svo pikkföst í kjafti laxins að við þurftum að skera hana úr. Næst fór frúin með sömu flugu. Smávegis eftir af kvöldinu. Á nákvæmlega sama bletti hjólaði lax í fluguna og fór í loftköstum sömu leiðina, stökk hátt uppúr á sama stað og sá fyrri og flaug uppá land! Lengra en sá fyrri og þarna spriklaði hann ógurlega. Þarna var varla vætt fyrr en langum neðar, þannig að frúin togaði fiskinn varlega fram á bakkann þangað til að hann smaug aftur í ána. Eftir nokkra stund var laxinum landað, nákvæmlega eins fiski, 6 punda björtum hæng og flugan jafn kolföst og í hinum og við settumst og köstuðum mæðinni, undrandi yfir þessum atburðum.

Þetta hlýtur að hafa eitthvað haft með straumlagið að gera.