Fleiri lokatölur í pottinn

Einn af þeim stærri úr Stóru Laxá í sumar

Það skreiðast inn nýjar lokatölur, þetta tekur sinn tíma en betra seint en aldrei segir máltækið. Tvær í kvöld, ein alveg ágæt, hin þolanleg miðað við hversu erfitt sumarið var lengi vel.

Þetta eru Stóra Laxá í Hreppum, en lokatala hennar varð 620 laxar, í fyrra voru þeir 654. Þetta eru tölur sem eru langt frá því sem hún hefur best gert, en í langtíma meðaltali er þetta fín útkoma. Fram kemur á FB síðu Stóru Laxár, að af 620 löxum hafi 552 verið sleppt. 382 komu á svæðum 1-2, 69 á svæði 3 og 169 á svæði 4.

Hin talan okkar að sinni er Reykjadalsá í Borgarfirði. Laxinn kom seint í hana og var líklega að byrja að komast í gírinn þegar vatns tók að hrapa. Hásumarið var erfitt vegna vatnsleysis og staðviðra. Glæddist svo aðeins í lokin og andaði í 123 löxum sem er þokkalegt miðað við aðstæður. Reykjan er ekki mikil stórlaxaá, hún þurfti því að reiða sig á slappar smálaxagöngur. Það var úr háum söðli að detta því í fyrra var veiðin um 340 laxar, sem var metveiði.