Nils Folmar, Steingrímur Einarsson
Nils Folmer með nýjasta tröllið í vaxandi safni. 106 cm og 60 cm í ummál. Myndina tók Steingrímur Einarsson.

Einn af stærstu löxum sumarsins var að veiðast á Nesveiðunum í Laxá í Aðaldal og hver annar en Nils Fölmer Jörgensen skyldi hafa dregið tröllið að landi. Fiskurinn var 106 cm með 60 cm ummál.

„Þetta var skemmtilegt,“ sagði Nils sem að landaði þremur af fjórum löxum morgunsins, en alls veiddust átta laxar á Nesveiðunum í gær þannig að þar á bæ eru menn kátir þar sem á stundum hefur veiðin verið dauf í sumar. Nesverjar segjast hafa verið að bíða eftir stóru hængunum og þeirra tími er nú kominn. Sem fyrr segir var laxinn hans Nils 106 cm með 60 cm ummál, Steingrímur Einarsson var á vettvangi og sá um mælingar og ljósmyndun. Okkur rekur minni til að hafa greint frá laxi Sem Hilmar Hansson veiddi á Nesveiðunum fyrr í sumar og var þar á ferð 105 cm með 61 í ummál. Laxinn veiddi Nils í Beygjunni og notaði fluguna Ernu, sem hann hannaði sjálfur, á krók númer 10.