Smá samantekt á fárinu….takið afstöðu

Þeir fá kannski Fálkaorðuna þessir norsku sérsveitarmenn

Það er nú ekki víst að þessi pistill sé frétt, blogg, samantekt eða hugleiðing. Kannski eitthvað af öllu. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að vera að bæta í allar nýju fréttirnar, og þær deildu. Við gerum okkar besta, en hér er smá hugleiðing/samantekt.

Ekkert svo sem nýtt hérna.

Öðru hvoru meginn við 3þúsund 12-14 punda frjóir og graðir laxar sleppa úr kvíum í Patró þar sem ekkert eftirlit hefur verið í eina þrjá mánuði ef við munum rétt? Þetta eru ekki seiði og/eða stubbar sem deyja kannski. Stórir og kynþroska…og tilbúnir. Og í ljós hefur komið að þeir eru flestir kynþroska sem passar ekki við það sem eldisfyrirtækin segjast vera að gera, skv þeim er reynt að halda í við kynþroska og það var ekki gert hér. Og það jaðrar við að vera lögreglumál.

Árnar telja á fjórða tug sem þeir hafa fundist í allt frá Dölum í vestri til Eyjafjarðar í austri. Laxar með eldisútliti hafa auk þess veiðst í Kálfá (hliðará Þjórsár) og Ytri Rangá. Enginn veit hvort að þeir eru víðar. En vitað er að göngur þeirra hafa verið að herðast og miðað við stofnstærðir villtra laxa á svæðinu, þá er þetta verulegt inngrip svo ekki sé meira sagt.

Og hvað segja opinberar stofnanir? Stangaveiða til 15.nóvember. Hleypa norskum köfurum í árnar með skutla. Loka laxastigum Í alvöru? MAST tók þó, loksins, þá ákvörðun að kæra til lögreglu. En hvað kemur út úr því þegar allar stofnanir, samtök, þingmenn og ráðherrar eru grafin svo djúpt oní rassvösum hinna norsku og innlendra skósveina þeirra að engum báti verður ruggað. Villtir laxastofnar eru á línunni, lúsafár, lúsaeitur í firði,  og síðast en ekki síst hrikaleg meðferð á eldisfiskum í kvíunum. Uggaslitnir, lúsétnir, hauslausir nánast margir. Munum eftir Brúneggjum….þetta er svipað af myndefni að dæma. Brúneggjum var lokað. En laxeldið blívur með fyrrheitum um að stækka enn.

Eldiselítan sagði alltaf að: Laxinn sleppur ekki. Við erum með svo góðar kvíar. Það er engin erfðarblöndun. Samt er hægt að kveðja til norskt fyrirtæki sem hefur drepið eldislaxa með köfun og skutlun í áratug eða meira, í mörgum tuga norskra áa. Einmitt.

Sagt er að öðru hvoru megin við 3000 laxar hafi sloppið úr kvínni. Það trúir því enginn lengur að þeir hafi ekki verið miklu fleiri. Og þeir eru enn að streyma inn á hrygningartíma villta laxins, fáránlega margir kynþroska vegna handvammar, eða ætlunar eldisfyrirtækisins.

Og með þessa norsku kafara, tökum ofan fyrir þeim. Þeir eru að gera sitt besta. En einmitt, svo eru þeir farnir og torfurnar halda áfram að ganga í árnar. Það sem þeir eru að gera er auðvitað gott, svo fremi að græjurnar þeirra og búnaður séu sótthreinsuð. Var tékkað á því MAST?

Þetta er svona samantekt. Allt hringsnýst í hausum laxveiðimann, náttúruverndarsinna og veiðiréttareigenda. En það hringsnýst ekkert í hausum pólitíkusa. Nóbb. Þar er einbeittur vilji að níða niður og eyðileggja íslenska náttúru fyrir skjótfenginn gróða, sem síðan fer að mestu til Noregs. Til hamingju íslensk pólitík. Það verður karma.