
Sjóbirtingsvertíðin er hafin og ein af þeim ám sem opnuðu strax í morgun var Eldvatn í Meðallandi. Ekki er hægt að segja annað en að vel hafi farið af stað skv fréttum hjá Jóni Hrafni, einum af leigutökum árinnar.

Það var fínasta veður, fremur kalt þó en stillt og vetrarlegt, jörð mikið til hvít. En fiskur var við, „við vorum með tíu landaða í morgun,75 cm stærstur. Annars bara góð stærð og ástand. Villi , Þórðavörðuhylur , Hundavað og Mangatangi að gefa best,“ sagði Jón Hrafn í skeyti til VoV í dag.

Veiði átti ekki að hefjast fyrr en á seinni vaktinni í Geirlandsá og Tungufljóti, við vonumst til að heyra fréttir af þeim slóðum áður en yfir lýkur með þennan dag og komandi kvöld.