Aðalsteinn Pétursso, Bás, Þverá
Aðalsteinn Pétursson með fallega 80 cm hrygnu úr veiðistaðnum Bás á neðsta svæðinu í Þverá. Laxinn tók Hairy Mary númer 12.

Veiðin í Þverá og Kjarrá fór vel af stað eins og við greindum frá. Hádegistölur dagsins gefa til kynna að í kvöld gætum við verið að tala um 70 laxa landaða af báðum svæðum. Fín tala, en Runki stal senunni augljóslega.

Ingólfur Ásgeirsson sagði okkur í kvöld að á hádegi hefðu verið komnir 43 laxar á land úr Kjarrá og rétt tæplega tuttugu úr Þverá. Þótt hann hefði ekki síðdegistöluna liti út fyrir að þetta væru um það bil sjötíu stykki í það heila. Það var orðið svínkalt í norðaustanáttinni í kvöld, 6 gráður klukkan níu og þá hættu menn bara og skelltu sér í pottinn, enda öll taka dottin niður.

Aðalsteinn Pétursson búinn að setja í fallegan stórlax í veiðistaðnum Bás í Þverá.

En þess utan hefur verið veðurblíða á vettvangi og sagði Ingólfur að hann hefði í tvígang upplifað nokkuð sem að fyrrum hefði talist óvenjulegt á þessum sumartíma, að sjá laxagöngur ryðjast á milli hylja, bökin uppúr  þegar ætt væri yfir brotin. „Í júní í gamla daga þótti merkilegt ef að maður sá lax skvetta sér, en ég er búinn að horfa í tvígang uppá laxahópa að æða milli staða. Einn í hópnum sá það sama í Kirkjustreng, það voru 50 til 60 stórlaxar á hraðferð up ána, yfir brotin og menn bara færðu sig upp með ánni og fylgdust með. Þetta er svolítið einkennið núna, það er lax um allt og mikil ferð á honum. Svo er líka líflegt niður frá, við erum með Brennuna inni í aðalsvæðinu núna, þangað fór stöng í morgun, setti í sex og landaði fjórum. Slatti af þessari veiði er smálax þannig að við erum að fá hann snemma inn eins og aðrir,“ bætti Ingólfur við.