
Vikutölur angling.is voru flestar komnar í hús í morgunsárið. Þó ekki allar. Afli síðustu viku segir auðvitað heilmikið, en auðvitað taka aðrar aðstæður en fiskimagn til sín, svo sem illviðrið sem geysaði vænan hluta vikunnar. Rangárþing ber af, en nokkrar á á Vesturlandi tóku vænan kipp og Norðausturhornið er eins og fyrri daginn líflegt.

Rennum hér í gegn um lista yfir aflahæstu árnar, fyrsta talan fyrir eftir hverja á er heildartalan miðað við í lok gærdagsins, 22.júlí. Talan í sviganum er síðan hin mikilvæga vikutala. Og auðvitað er Eystri Rangá lang efst:
Eystri Rangá 2275 (703)
Ytri Rangá 897 (322)
Urriðafoss 657 ( 24 )
Miðfjarðará 540 (203)
Þverá/Kjarrá 477 (129)
Haffjarðará 428 (112)
Langá 385 (110)
Laxá í Kjós 325 (122)
Selá 308 (171)
Hofsá 276 (91)
Laxá á Ásum 275 (87)
Blanda 262 (75)
Elliðaárnar 222 (55)
Hítará 210 (77)
Jökla 202 (114)
Laxá í Aðaldal 185 (42)
Grímsá 184 (47)
Skjálfandafljót 149 (56)
Vatnsdalsá 122 (31)
Árnar hér að ofan eru þær sem komist hafa í þriggja stafa tölu og voru með nýja tölu sem miðaðist við að kvöldi 22.7. Svæði sem vantar þarna inn á við skráningu þessa texta eru Norðurá, Laxá í Leirársveit, Víðidalsá, Brennan og Straumar, allt svæði í þriggja stafa tölu, því gæti þessi listi að ofan riðlast þegar nýjustu tölur berast loks frá umræddum svæðum.
Glöggt má sjá að Rangárþing, sérstaklega hið eystra, en þó í vaxandi málið hið Ytra líka er heitasta svæðið. Þá er ánægjulegt að sjá að nokkrar ár á Vesturlandi eru með ágætis gang, t.d. Laxá í Kjós, Haffjarðará og Langá. Norðaustanlands er góðar vikutölur, kannski flottast að þessu sinni í Jöklu og Selá. Miðfjarðará er sem fyrr með höfuð og herðar yfir ár á Norðvesturlandi, en tölurnar sýna að víða er rólegt. Veðurfar og eins, að kannski í ekki fullmannað alls staðar við veiðiskapinn vegna Kórónuforfalla. Þá stingur Urriðafoss vissulega í stúf, þar hafði verið blússandi veiði, fín skot líka á tilraunasvæðunum, sérstaklega á Urriðafoss B, en óveðrið með tilheyrandi vatnavöxtum hefur aflaust spilað þar inn í.