Sportveiðiblaðið komið út

Fyrir skemmstu kom út sumar/haustblað Sportveiðiblaðsins, smekkfullt af margbreytilegu efni að vanda. Kennir margra grasa og ekki gerlegt að tína allt til.

Sem sagt margt og mikið. Að venju eru nokkur stærri viðtöl burðarefnið. Þau eru að þessu sinni við ötullega veiðikonu að nafni Guðrún Hildur Jóhannsdóttir og „Matta í Mýrarkvísl, hamhleupuna fyrir norðan, leigutaka Mýrarkvíslar og fleiri svæða. Reyndar fjölda svæða. Bæði hafa frá mörgu að segja. Gunnar Helgason, leikari og rithöfundur skrifar grein um leiðindagaurinn í veiðihúsinu, sem reynist vera hann sjálfur og einnig má nefna fróðlega innblásturgrein eftir Elvar Friðriksson hjá NASF um herförina gegn villta íslenska laxastofninum og náttúru Íslands í leiðinni, með ástundun á opnu sjókvíaeldi með frjóan norskan lax. Þær hafa verið margar greinarnar um það efni í gegn um tíðina, en ef oft var þörf þá var nú nauðsyn því nýlega var stórt sleppislys á Vestfjörðum og eldislaxar hafa streymt upp í margar laxveiðiár. Mörgum þykir að nú sé staðið á vissum tímamótum, að byrjunin á endalokunum sé hafin. Einhverjir myndu segja sem svo að enn sé von og eitthvað þurfi að gera, en staðreyndin er engu að síður sú að stjórnvöld sýna þessu stórslysi engan áhuga og norsku eldisfyrirtækin og íslenskir skósveinar þeirra fara hamförum sem aldrei fyrr.