Neðan við Drekkingarhyl. Þarna er maður ekki að fara að sjá mikið þessa dagann! Myndir -gg.

Besta hugsanlega veðrið var um síðustu helgi til að ná í endann á sjónarspilinu við Öxará á þessu hausti. Komið að lokum október og hrygning væntanlega á fullu. Sól og logn. En það hafði frosið hrikalega nóttina fyrir sunnudaginn og að sögn nóttina á undan líka. Þannig að myndirnar sýna að vetur er genginn í garð á urriðaslóðum, en samt mátti grilla í tröllin í gegnum ísinn á stöku stað. Það í sjálfu sér var magnað.

Ofan við miðbrýrnar, klakinn að hrannast upp!
Séð frá brúnni við Valhallareitinn…..

En því miður voru myndir teknar af færi í gegnum ís ekki eitthvað til að birta, heldur til að geyma í minningunni. Við brúna á Valhallarreitnum var einn hátt í 20 pund rétt ofan brúar. Þar var eina vökin. Af og til komu 2-3 syndandi að ofan og fóru svo aftur undir klakasængina.. Tuttu metrum ofar sá á litlum glugga ofan í, meterslangt í mesta lagi til allra hliða. Þar var röð af skuggum og eitt sinn kom einn, 12-14 punda og var að reka nefið í klakann. Bankaði nokkrum sinnum, synti svo leitilega niður. Það sást á íbúunum hver kuldinn var, þeir tifuðu varla ugga. Samt var tröllið ofan við brúna farið tuttugu mínútum seinna og annað, næstum jafn stórt kom skríðandi ofanúr vatni. Það voru sem sagt enn að tínast inn fiskar.

En miðað við myndirnar, þá hefur frostið verið umtalsvert. Klaki hrannast upp og hvergi auðan blett að sjá, nema við brúna neðst. Undir ískápunni fá þeir frið til að fjölda sér í friði.