Þetta er flugan Sjáandinn sem er ein af hugarsmíðum Einars Páls Garðarssonar. Myndin er lýsadi dæmi, ekki aðeins um gjöfula flugu, heldur þær flugustærðir sem skipta sköpum í sumar. Myndina tók Einar Páll Garðarsson.

Ekki hefur farið hjá því að laxveiðiveröldin á Íslandi er í heilmiklu uppnámi. Vel seldar árnar renna varla eftir dæmalausa þurrkatíð. Og að auki er mun minna af laxi en menn væntu og vonuðust eftir. Það eru undantekningar frá þessu ástandi, en bara allt of fáar og rækilega staðbundnar, s.s. Norðausturhornið og Rangárþing eystra. Það er kvíði fyrir hendi að sölumálin verði þrautin þyngri fyrir komandi sumar og að ástandið gæti leitt af sér skipulagsbreytingar.

Skipulagsbreytingar? Já. Það er ekkert leyndarmál að leigutakar eru ýmsir búnir að fara í viðræður við landeigendur um að breyta strúktúrnum. Við höfum enn ekkert dæmi um að vel sé tekið í svoleiðis pælingar og vel hægt að skilja að bændur vilji bara sinn aur. En þær fréttir bárust nýverið að Árni Baldursson/Lax-á hafi rift síðasta ári samnings um Blöndu. Hann hefur lýst yfir áhuga og vilja til að vinna með veiðifélaginu, en hefur ekki áhuga á að taka skellinn einn. Ef að skellur verður. Það er einmitt eðli leigutöku. Blanda er mjög sérstök í flórunni. Þar veiðist oft gríðarlega vel, en iðulega lang mest á neðsta svæðinu á þær fjórar stangir sem þar eru….mikið veitt og mikið drepið. Líka stórlaxinn. Líklega eina áin (utan kannski Rangána) þar sem stórlax er drepinn, í Rangánum er hann þó yfirleitt dreginn á land og settur lifandi í kistur til að nýta hrognin og svilin. En Blanda hefur verið öðru vísi.

Árni hefur einnig með Sogið og Stóru Laxá að gera og þar er ekki aðeins glímt við náttúruleg skilyrði, slæm eða góð, heldur netaruglið. Í Blöndu leggur hann áherslu á að öllum stórlaxi verði sleppt, aðeins veitt á flugu og jafnvel öllu sleppt, í öðru falli lítill kvóti á smálaxi. Svona sölufyrirkomulag er orðið þekkt, í Laxá á Ásum og í Norðurá eru umboðsmenn sem selja leyfin  og allir fá það sem áin skilar raunhæft. Enginn tekur skellinn. Þetta vill Árni með Blöndu, sem nóta bene er ein tveggja áa sem er sérlega erfið í markaðssetningu vegna þess að menn vita aldrei fyrirfram hvenær kemur yfirfall.

Fyrir utan að veiði er góð í Hofsá, Selá og Miðfjarðará í Bakkafirði. Var flott í Jöklu fyrir yfirfall og vel boðleg í Þistilfirði og á Sléttu, þá er aðeins flott veiði í Eystri Rangá sem byggir á snilld Einars Lúðvíkssonar á sviði gönguseiðasleppinga. Tvær ár rétt lafa inni sem þokkalegar, Miðfjarðará og Ytri Rangá, sú síðarnefnda þó varla miðað við aflatölur síðustu ára og væntingar. Annars er þetta mjög dapurt.

VoV hefur heyrt í ýmsum leigutökum að undanförnu og þeir vilja ekki láta hafa neitt eftir sér. Umsjónarmenn á Norðausturhorninu og í Eystri Rangá eru aðallega þakklátir fyrir að þeirra svæði virki. Þeir allir áttu frekar von á því miðað við seiðastöðu og vatnsbúskap, sem er ekki vandamál á umræddum svæðum. En aðrir hafa sagt: „Þetta er hrikalegt“, „Þetta er viðbjóður“, „Sölumálin fyrir 2020 verða eitthvað“, Ísland hefur alltaf verið öruggt, jafnvel í góðu ári, hvað gerist nú?“

Það gæti auðvitað farið að rigna og þá glæðist veiðin eitthvað. Það er búið að vera úrhelli fyrir norðan síðust tvo daga og það gæti glæðst þar, kannski líka í Dölum og Borgarfirði ef að heiðarnar hafa fengið eitthvað af skammtinum. Menn geta þá kannski sýnt betri tölur heldur en verið hafa síðustu vikur. En þær verða samt of lágar og margir sem voru í sumar hafa verið hér ár eftir ár. Þá er að höfða til „one off“, 2018 hafi aldrei hætt að rigna. Samt var veiðismarið þá ekkert allt of gott. Samt meira af laxi þá en ú, aðallega smálaxi.

Nú bíðum við og sjáum hvernig síðasti mánuður vertíðarinnar verður. Rignir? Er eitthvað af laxi enn í sjónum? Hvað skilar sér á land ef rignir? Þegar stórt er spurt….