
Það fór allt saman vel af stað í Urriðafossi í morgun. Menn ganga þangað ævinlega bjartsýnir til að opna, enda yfirleitt líf og fjör. Á því varð engin breyting núna, þegar þessari fyrstu vakt var lokið var búið að landa tíu boltafiskum, nokkrir samt undir 80 cm.
Lanadeigendur á Urriðafossi og leigutakarnir hjá IO veiðileyfum blésu til veislunnar og það aðeins örfáar mínútur liðnar þegar Birna Harðardóttir bóndi á Urriðafossi hafði sett í og landað fyrsta laxinum. Síðan komu þeir af öðrum uns tíu voru komnir á þurrt. Þann stærsta, 87 cm veiddi Harpa Hlín leigutaki.
Þrátt fyrir að þetta sé fyrsta formlega „opnunin“ hefur það gerst býsna oft að lax hafi verið búinn að veiðast annars staðar, eins og raunin varð nú, en það er að detta í viku síðan að fyrsti lax sumarsins veiddist við Skugga í Borgarfirði. En þetta lofar góðu og með betri fyrstu morgnum í opnun hin seinni ár. Ástæða því til bjartsýni, en enn á margt eftir að koma í ljós með laxagöngur á Íslandi almenn 2024 því eins og menn muna, þá voru þrjú síðustu sumur afar róleg.
 
             
		








