Hvernig er hægt að ná laxi við þessar aðstæður?

Hér er Svilaklöpp í Leirvogsá 10.6 2019. Djúpur efst og gæti haldið fiski......

Nú er illt við stangaveiðar á laxi að eiga nema þar sem eitthvert vatnsrennsli er að gagni. Má þannig líta til Blöndu og Þjórsár, og einnig Hvítár í Borgarfirði, þar sem lax hefur verið að ganga og aðstandendur þeirra áa sem lyppast um „niðri í grjóti“ eins og sagt er, geta litið til fyrrnefndra áa og séð að þar er lax og þeirra ár muni taka við sér þegar tíðin breytist.

….en fyrst þarf laxinn að koma sér upp úr svona skilyrðum, ökkladjúpt vatn og ekki ský á heimni nótt sem nýtan dag!

En hvað er til ráða í ám á borð við Norðurá, Þverá og Kjarrá, auk hinna sem bætast munu við næstu daga og vikur? Fyrir liggur að sá lax sem náði að troða sér upp áður en ástandið varð enn alvarlegra á það til að vera óhemju styggur í björtu veðrinu og vatnsleysinu. Hann bunkast auk þess á fáa staði vegna þess að svo margir reyndir veiðistaðir halda ekki fiski. Það gerir hlutina ekki einfaldari nema síður sé. Þar sem einungis er fluguveiði í ám þessum þá ber að skoða aðfferðarfræðina útfrá því.

Eina leiðin sem er fær er að lengja tauminn í a.m.k. hálfa aðra stangarlengd. Hafa hann eina grannan og menn þora. Fara niður í flugustærðir 16, 18 og 20. Laxinn liggur gjarnan núna í hyljum sem hafa djúpt innrennsli með nokkrurm straumi. Eru ekki að flækjast í miðjum hyl og brotin eru ónýt. Samkvæmt sérfræðingunum þarf að koma ofan að og leggja fluguna í strauminn ofan við þar sem laxarnir liggja þannig að þeir finni ekki fyrir styggð af línunni, sem þeir geta verið óheyrilega naskir að nema. Svona er gerlegt að koma nokkrum köstum á þá áður en þeir fara að skjótast um og hringsóla. Ef minnsti vottur verður á slíku, ber að hvíla um sinn og t.d. skipta um flugu í leiðinni.

Sá snjalli kappi, Ásgeir Heiðar grípur stundum til þess bragðs að „dappa“, en eftir að hann sá enskan veiðimann sigrast á ferlegum aðstæðum eitt sinn í Laxá í Kjós, hefur hann gripið til þess ráðs sjálfur oftar en einu sinni. Þá miðast við að laxinn liggi undir hvítfyssinu í litlu vatn. Þá kemur veiðimaður sér fyrir vel fyrir ofan og gefur út línu. Þegar flugan er hvítfyssinu og lætur hann fluguna nánast skoppa í yfirborðinu. Heldur stönginni hátt og sér af og til til flugunnar þar sem hún færist til og frá í hvíta vatninu. Oft kemur haus uppúr og neglir. Þetta mætti alveg reyna.

Það er ekki margt annað í stöðunni, utan að þrátt fyrir að laxheldir staðir eru fáir þá ber að reyna að hlífa þeim og vanda sig við þá í morgunsárið og svo undir lok kvöldvaktar og þá hafi þeir helst sætt nokkurri friðum.

Efri Skrauti í Leirvogsá 10.6 2019. Útfall hylsins varla fiskgengt.

En hvað með að gera hið gagnstæða?

En svo er það hin hliðin á teningnum. Þessi furðulega og útúreiknanlega. Lee Wulff, sá gamli snillingur skrifaði um það í klassískri bók sinni The Atlantic salmon, að sér hefði tekist að fá algerlega staða laxa í gríðarlegu vatnsleysi, til að grípa fluguna eftir að hannn þeytti hnullungi útí ána til að styggja þá. Þarna voru að vísu dæmi um laxa sem höfðu verið lengi í ánni. Spurning hvort að slíkar gerræðisaðgerðir gætu gengið upp nú um stundir?

Talandi um að henda steinum og styggja laxa til töku, þá getum við látið fljóta hér með veiðisögu sem er af líkum toga. Eitt sinn var ritstjóri og frú hans ofarlega í Langá. Veiðistaðurinn heitir Hornhylur og er skammt neðan við Sveðjufoss. Þetta var í byrjun september, þurrkar höfðu staðið frá júlíbyrjun, allt vatn lekið úr vatnsmiðluninni í Langavatni og lítið af laxi að auki. Við vorum þarna lítill hópur með fjórar stangir, en aðeins þrír hyljir fiskheldir. Þetta var áður en að áin var leigð út í heilu lagi.

Í Hornhyl voru 14 laxar. Nokkur stykki í dýpstu djúpum Sveðjuhyls og svo nokkur stykki í Kleifsáskvörn sem þá var með djúpan pytt efst. Hvergi ofan við Sveljufoss fundum við laxa og þetta sumar var fádæma lélegt á „Fjallinu“.

Krækilyngið upp með Leirvogsá virkar hreinlega brunnið eftir alla sólina síðustu vikur.

En það lyftist aðeins brúnin á fólki þegar röðin kom hjá því að Hornhyl því þar var hægt að kasta á litla laxatorfu. Svo áttum við hjónin sem sagt þennan stað, en fórum okkur að engu óðslega, enda einn staður á svæðinu og mál að fara um hann silkihönskum. Ella færi enn ein vaktin í að tína ber.

En þegar við komum arkandi að hylnum brá okkur í brún, toppandarkolla var á miðjum hyl með 6-7 vel vaxna unga. Sú gamla ærðist þegar hún sá okkur og steypti sér á kaf í hylinn. Og ungarnir með. Þeim skaut upp hvað eftir annað, sáu okkur og óðu aftur á kaf.

Á þetta horfðum við agndofa í 2-3 mínútur, en gengum síðan út á hylbrún til að freista þess að fæla fuglana burt úr hylnum. Þarna stóðum við síðan á brún hyljarins, sem var eins og tvö stór baðker og sjónin við blasti fer seint úr minningunni. 14 laxar og 8 toppendur köfuðu þar saman í trylltu hringsundi! Við horfðum á í nokkur augnablik en játuðum okkur síðan sigruð, hörfuðum frá hylnum og fengum okkur sæti þar sem nóg var af berjum.

Um síðir skaut toppandanrmömmu uppúr og virtist róast er hún sá okkur aðeins sitjandi en ekki á rölti í áttina til sín. Ungarnir týndust úr kafi hver af öðrum og söfnuðum til múttu gömlu uns allur hópurinn stóð á grunnu við útfall hylsins. Á þeim tímapunkti afréð ég að standa upp í þeirri von að endurnar myndu þá hörfa niður ána og burt frá hylnum. Það gekk eftir og eru þær úr sögunni.

Við horfðum hvort á annað og hristum hausa. Hvað var í stöðunni? Tækifærið úr sögunni. „Jæja jú, bara að kasta á þetta. Ekkert annað,“ sögðum við. Frúin var til í að byrja, var með litla Black Brahan og þarf ekki að hafa um það mörg orð að þarna tók hún þrjá í beit! Þarna hafði ekki veiðst fiskur í að minnsta kosti hálfan mánuð, en þó endalaust staðið þar við vegna aðstæðna. Og þetta voru einu laxarnir sem hópurinn okkar veiddi á þremur dögum. Þannig að það virðist vera að rótið sem kom á torfuna hafi valdið því að það kom tímabundin tökuhrina.