Reiða öndin, Þorbjörn Helgi á góðri stundu ásamt fleiri landsþekktum hnýturum

Það er gaman að grúska í því bralli sem Reiða öndin stendur fyrir, sérsniðnu handverki stílað til veiðimanna. Einstakar gjafir. Við skoðun á vefsíðu Reiðu andarinnar er ekki aðeins að finna allskonar fallega gjafavöru heldur stóra samantekt um veiðnar laxaflugur sem margar hverjar eru ekki svo mikið í umræðunni lengur. En eru þó til í ýmsum fluguboxum og gefa vel þegar röðin kemur að þeim. Tökum sem dæmi……

Lonly Blue.

…fluguna Lonly Blue. Ýmsir hafa eflaust heyrt hennar getið, en hversu margir þekkja hana, eða hafa veitt á hana. Hún er ein margra flugna sem Þorbjörn Helgi, Reiða öndin tekur fyrir og dælir út fróðleik um fluguna og fleiri. Þar segir hann: „Þessi fluga er eftir meistara Jensen. Það er falleg samsetning á litum og er hún einstaklega falleg enda er flugan mjög veiðin. Ég reyndi hana í fyrsta skipti í fyrra og gaf hún mér eina fjóra laxa. Þessi fluga á að vera til hjá öllum veiðimönnum. Hún er með UV í skegginu sem gerir hana enn öflugri.“

Fleira mætti nefna, t.d. er Reiða öndin með sérmerk leðurfluguveski og eru veskin merkt eisntökum ám og fylltaf af flugum sem reynst hafa sérstaklega vel í þeim. Tökum Langá sem dæmi.

Langárveskið, en mun fleiri laxveiðiár eru með sérmerkt fluguveski.

„Langá á Mýrum er falleg og glæsileg veiðiá. Þar hef ég veitt lengi og átt margar frábærar stundir með mínum bestu veiðifélögum og vinum. Áin hefur að geyma marga glæsilega veiðistaði sem ég held mikið upp á svo sem eins og Bjargstreng, Hornbreiðu, Hornhyl, Efri Hvítserk, Glannabrot, Bárðabungu, Háhólskvörn, Þjótanda, Fljótanda, Kattafossbrot, Kerstapann og svo mætti lengi telja. Mína bestu veiði í gegnum árin var á stað upp á fjalli sem heitir Koteyrarstrengur, fallegur vanmetinn staður en held þó að hann hafi breytt sér í gegnum árin.

Veskið hefur að geyma útgáfur af flugum hnýttar af RÖ sem hafa reynst mér og mínum vel við Langá í gegnum árin ásamt nýrri flugu frá Sigga Haug sem heitir því skemmtilega nafni Kampavínsflugan. Í veskinu eru Collie Dog, Skuggi, Kolskeggur, Haugur, SRS gamli, Langá Fancy, Silver Sheep, Posh Tosh, Fröken Fancy, Blue Boy, Rauð Frances á Gulli, Evening Dress. Einkrækju Hitch , Langá Fancy, Haugur, Kolskeggur, Bía og Crossfield. Eftir að hafa skrifað þetta langar mig að fara að veiða í Langá , ætli það sé ekki best að hafa samband við SVFR ?“