Þjórsá, Urriðafoss
Þetta er augljóslega krefjandi veiðislóð, en gjöful er hún!

Í umræðunni er nokkuð talað um hversu dauf veiðin hefur verið í Urriðafossi allra síðustu vikurnar, eftir flottan gang framan af. En ef grannt er skoðað er þetta ekki svo ólíkt sumrinu 2017. Það var bara svo hrikalega flott veiði í fyrra að freistingin er að bera allt saman við það.

Við heyrðum í Stefáni Sigurðssyni, sem ásamt eiginkonu sinni Hörpu Hlín Þórðardóttur, leigja svæðið í nafni IO veiðileyfi. Stefán sagði: „Ég veit ekki hvað skal segja, 2017 okkar fyrsta ár, var svipað. Dró úr veiðinni á þessum tíma, í fyrra var alveg fanta veiði á þessum tíma, en áin er búin að vera rosalega skoluð og vatnslítil, sem gerir það að verkum að laxinn er fjær landi og fer hraðar í gegn. Það verður samt spennandi að sjá hvað gerist eftir rigningarnar.“

Og það er einmitt málið. S.l. miðvikudagskvöld voru komnir 729 laxar á land og síðustu vikurnar fremur rólegar. Þau hjón voru fyrst með svæðið 2017 og fyrstu vikurnar var gríðarlega lífleg veiði og mikið af stórlaxi. Síðan dalaði veiðin síðsumars, var 742 laxar á sama tíma og nú og endaði með lokatöluna 755. Í fyrra var hins vegar annað uppi á teningunum. Á sama tíma í fyrra var búið að landa 1211 löxum og lokatalan var 1320 stykki.

Þetta eru því líklega bara eðlilegar sveiflur þar sem spila saman laxamagn og skilyrði, á borð við grugg og vatnsstöðu.