Afar döpur vika að baki en örfáir ljósir punktar

Falleg mynd tekin neðan við Kistukvísl í Laxá í Aðaldal. Myndin er fengin hjá Matthíasi Þór Hákonarsyni veiðileyfasala á Akureyri.

Vikutölurnar í öllum helstu laxveiðiánum eru nákvæmlega það sem búast mátti við að fenginni reynslu síðustu vikna. Yfirleitt afleitt ástand, en nokkrir ljósir punktar. Ekki margir, en það má finna þá örfáa.

Sem sagt. Rigningin sem átti að vera í dag var aldrei að fara að hafa áhrif á síðustu vikutölur. Svo var þessi meinta slagveðurslægð vart annað en smá suddi. Hefði kannski verið fínt ef ástandið væri ekki bagalegt og raun ber vitni. En skoðum fyrst ljósu punktanna. VoV greindi frá því fyrir skemmstu að kunnugir teldur sig sjá teikn á lofti með að Laxá í Aðaldal væri að sýna þess merki að einhver bati væri kominn af stað eftir einstaklega ömurlega áraröð þar sem veiðitölur bara minnkuðu og minnkuðu. Laxá á langt í land með að ná fyrri styrk,  en eftir að hafa gefið 71 lax í síðustu viku fór áin í 450 laxa. Alls, þegar botninum var náð í fyrra, veiddust í ánni 402 laxar. Þetta er ekki mikið enn sem komið er, en samt næstum fimmtíu laxar og hálfur ágúst og slatti af september eftir. Kunnugir telja að mun meira sé af laxi í ánni en í fyrra. Þetta telst vera ljós punktur í döpru veiðisumri.

Þá eru Vopnafjarðarárnar Selá og Hofsá á fínu róli og betri en á sama tíma í fyrra og báðar með þriggja stafa viku. Aðrar ár á Norðausturhorninu hafa og verið líflegar og sömu sögu má segja um Jöklu sem var flott fram að yfirfalli 1.ágúst. En síðan ekki söguna meir í bili og hliðarárnar sem ætlunin er að rækta upp til að jafna út yfirfallstjónið, hafa litlu skilað í ágúst.

Af öðru, Miðfjarðará tekst einhvern vegin að skila þriggja stafa viku annað skiptið í röð. Og Það má ekki gleyma Rangánum, sem eru með lang hæstu vikutölurnar og eru að auki einu árnar til að komast í fjögurra stafa tölu. Það segir allt um þetta sumar að engin sjálfbæru ána hefur náð fjögurra stafa tölu nú þegar ágúst er ríflega hálfnaður. Hvað Rangárnar varðar þá að er að slítast upp úr þeim lax, en vikutölurnar eru samt ekki nema á pari við dagsveiðitölur þegar best lét. Þær eru lang hæstar, en á þeirra eigin standard er sumarið ekki gott.

Að vanda skoðum við hæstu árnar. Fyrsta talan er heildartalan sem miðast við kvöldið 16.8. Seinni talan er vikuveiðitalan og eins og sjá má er sú tala ansi döpur ansi víða.

Ytri Rangá      1781 – 362

Eystri Rangá    1426 – 256

Þverá/Kjarrá     890  – 61

Selá                  819 – 131

Miðfjarðará         791 – 111

Norðurá             752 – 42

Hofsá                 727 – 104

Haffjarðará          723 – 81

Laxá á Ásum        476 – 56

Jökla                    435 – 2

Langá                   458 – 25

Laxá í Aðaldal         450 – 71

Elliðaárnar              444 – 25

Víðidalsá                 388 – 27

Grímsá                    357 – 26

Skjálfandafljót          342 – 23

Blanda                      342 – 24

Hólsá Aust.                341 – 45

Hér sjáum við að landsþekktar laxveiðiár ná ekki lista þessum, Laxárnar þrjár í Dölum, Leirársveit og Kjós, Haukadalsá, Straumfjarðará, Leirvogsá og fleiri. Þá vantar eins og stundum áður, nýjar tölur úr Urriðafossi. Hann er meðal efstu svæða, en tölur þar hafa dalað mjög þegar liðið hefur á sumarið.

Og hvað með framhaldið? „Vatnsveðrið“ var eins og lítið andvarp og ekki meiri væta í kortunum í bili. Sem sagt, því miður, líklega meira af því sama þangað til að stórvægileg breyting verður á veðurfarinu. Og þó að það myndi gerast strax á morgun, er orðið of seint að breyta lélgu veiðisumri í miðlungs. Samt eiga ævintýri eftir að gerast og veiðisögur verða til, það er nefnilega alls ekki laxlaust.