Harðorðar ályktanir gegn sjókvíaeldi í opnum kvíum voru samþykktar á aðalfundum veiðifélaga Hofsár, Sunnudalsár og Selár í Vopnafirði fyrir fáum dögum. Eru þær í anda fyrri ályktana, m.a. frá veiðifélögum á vestanverðu Norðurlandi. Hér er samræmdur texti.

Aðalfundur Veiðifélags Selár, haldinn 29. apríl, 2017, og aðalfundur Veiðifélags Hofsár og Sunnudalsár haldinn 30. apríl, 2017, mótmæla harðlega áætlunum um risalaxeldi með ógeldan norskan eldislax í opnum sjókvíum í austfirskum fjörðum.

Á Vopnafirði er fjölbreytt náttúra og lífríki með ám sem hafa einstaka villta íslenska laxastofna, sem hafa þróast um aldir og lifað af margvísleg áföll í náttúrunni. Sjálfbær veiði vatnafiska er og hefur verið mikilvæg kjölfesta í ferðaþjónustu á Vopnafirði um langt skeið og miklir fjármunir hafa verið lagðir í uppbyggingu, m.a. veiðihús, vega og innviða.

Laxastofnum í ám á Vopnafirði og um allt land og lífríki við strendur Íslands stendur mikil ógn af fyrirhugaðri laxeldisstóriðju. Á Austfjörðum eru núna framleidd 1.500 tonn af laxi, en fiskeldisfyrirtækin Fiskeldi Austurlands og Laxar fiskeldi eru með leyfi til framleiðslu á 17 þúsund tonnum og hyggjast fullnýta leyfin á næstu 2-3 árum. Þá hafa fyrirtækin kynnt matsáætlanir um laxeldi allt að 90 þúsund tonna ársframleiðslu.

Veiðifélögin benda á að laxfiskar hafa sloppið í umtalsverðum mæli úr sjókvíum hérlendis og hafa gengið upp í ár fjarri uppelsistöðvum sínum. Það sama á við í nágrannalöndum og þar eru margir villtir laxstofnar í ám nær útdauðir vegna erfðablöndunar við eldislax, sem m.a. truflar náttúruval og ratvísi og dregur úr líffræðilegum fjölbreytileika. Þá er mengun af sjókvíaeldi mikill vegna úrgangs og lyfjaleifa með skaðvænlegum áhrifum fyrir sjávardýr og fuglalíf.

Aðalfundir Veiðifélags Hofsár og Sunnudalsár og Veiðifélags Selár ítreka mikilvægi þess að stjórnvöld og sveitastjórnir standi vörð um náttúruna, en laxeldi í opnum sjókvíum með framandi stofni brýtur gegn ákvæðum íslenskra laga og alþjóðsamninga um umhverfisvernd og gegn varúðarreglu íslenskra náttúruverndarlaga.