Hvað er að frétta af húkk kúltúrnum?

Laxar. Mynd Einar Falur.

Sporðaköst á mbl.is greindu frá sterkum grun fyrir skemmstu, að stórfellt húkk væri stundað í Urriðafossi í Þjórsá. VoV hefur aldeilis heyrt líka af því, en ekki valið að greina frá. En fyrst að umræðan er komin í loftið, þá…..

Já, við höfum marg oft heyrt af húkki í Urriðafossi. Og það er ljótt að þurfa að segja frá því vegna þess að margir, líklega flestir, eru ekki að standa í svoleiðis. En þeir sem þekkja til vita, að þrátt fyrir góðan vilja, þá er erfitt að húkka EKKi. Sums staðar. Eins og í Urriðafossi, þar sem stórar torfur af laxi liggja á litlum blettum stutt frá landi. Menn ætla kannski ekki að húkka, en það gerist samt.

Það er eitt að vilja ekki húkka en húkka samt eða húkka af ásetningi. Einu sinni fyrir fleiri árum en ritstjóri kærir sig um að rifja upp, var staðið við hylinn neðan við Teljarastrenginn í Elliðaánum. Það var svakalegur haugur af laxi þar, engin taka og maðkur leyfður. Eitt þverkast, snerting, stöng lift og ca 7 punda hængur var á. Hann var „tekinn“ fyrir aftan annan eyruggann. Sleppti honum. Fyrir nokkrum árum í Vatnsá kom annar, sá réðist á fluguna en náði ekki, en hún náði honum….þetta var 92 cm hængur sem fer aldrei úr minningunni.

En tilefni skrifanna er þetta: Menn geta húkkað óvart, eða ekki. Í gamla daga var húkk-kúltúr í Blöndu sem betur fer heyrir sögunni til. En fyrir utan Blöndu og Urriðafoss, þá var og kannski er (vonandi ekki) húkk-kúltúr í Rangánum. Dæmi hér: Fyrir all nokkrum árum var ritstjóri að veiða í Geirlandsá með nokkrum vinum. En í hópnum voru líka nokkrir sem undirritaður þekkti ekki. Einn þeirra bjó á Selfossi og í samtölum kom á daginn að hann veiddi talsvert í Rangánum. Meira í Eystri, en líka í Ytri. Hann var nýbúinn að vera í Eystri.

Samtalið var einhver vegin svona:

Jæja, þú varst um daginn?

Já.

Og hvernig gekk?

Jah, ekki spes, fékk bara ellefu.

Á einum degi?

Það er nú í lagi er það ekki?

Jújú svo sem

Hvað var hann að taka hjá þér?

Ekkert

Nú?

Nei, það var engin taka, áin var skoluð og ég fór bara í breiðuna fyrir neðan sleppitjörnina

Og hvað?

Þeir tóku ekki, ég tók þá bara

Svona voru margar sögur frá Rangánum á þessum árum, laxinn raðaði sér í löngum röðum, á mörgum hæðum neðan við útfallið úr sleppitjörnunum. Ef þeir tóku ekki, þá voru þeir teknir. Hvernig ætli að þetta sé í dag?