Mikið lesefni fyrir veiðimenn- og konur

Lax sýndi sig á speglinum fyrir ofan ósstrenginn. Tók stuttu síðar en hafði heppnina með sér og slapp. Mynd -gg.

Það er óhætt að segja að veiðimenn og konur fái nóg að lesa yfir hátíðirnar, því bæði Veiðimaðurinn og Sportveiðiblaðið voru að koma út í vikunni. Vetrarblað Veiðimannsins og þriðja tbl Sportveiðiblaðsins 2017.

Veiðimaðurinn
Kápa Veiðimannsins

„Vetrarblað Veiðimannsins er komið út og er á leið til félagsmanna SVFR sem geta látið sig dreyma um komandi veiðisumar yfir hátíðirnar á meðan þeir drekka í sig veiðisögur og fróðleik“, segir í fréttatilkynningu frá SVFR. Og þar segir enn fremur:

„Efnið er fjölbreytt að vanda, en í blaðinu er m.a. veiðistaðalýsing á Straumfjarðará sem SVFR tryggði sér á haustdögum og mikill fengur er að. Veiðimaðurinn rýnir í veiðidagbækur Jóns G. Baldvinssonar, fyrrverandi formanns félagsins en hann skráði niður fyrstu þúsund laxana sem hann veiddi! Urriðaveiðin fyrir norðan er krufin, Veiðimaðurinn kynnir sér söguna af Frigga, bregður sér á söguslóð á bökkum Elliðaánna og ræðir við sprækan vatnaveiðimann sem kann best við sig upp á heiðum að kanna ókunn lönd. Síðast en ekki síst er verðlaunamynd Veiðimannsins frá liðnu sumri birt í blaðinu en höfundur hennar fær 50 þúsund krónur upp í veiðileyfi næsta sumars hjá SVFR.“

Þá er þess getið að Veiðimanninum fylgir glæsilegt veggspjald með flóðatöflu sem sýnir flóð og fjöru næsta sumars á myndrænan hátt og hvenær er stórstreymt.

Sportveiðiblaðið
Kápa Sportveiðiblaðsins

Sportveiðiblaðið er 3. tbl. 2017. „Það er farið um víðan völl í blaðinu að vanda,“ segir Gunnar Bender ritstjóri blaðsins, en af efni sagði Gunnar: „Af mörgu vildi ég helst nefna Ítarlegt viðtal við Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á Norðurlandi, um áhuga hennar á laxveiðum og Laxá í Aðaldal. Ólafur Vigfússon í Veiðihorninu skrifar um ævintýralega veiðiupplifun á Jólaeyju (Kiritimati) og viðtal við Jónas Marteinsson. Þá segir Harpa Hlín Þórðardóttir frá veiðum í Eistlandi, spjallað er við Gústa Morthens og Hrefnu Halldórsdóttur, en þau voru að hætti rekstri á verslunni Veiðisport á Selfossi, eftir 30 ára rekstur. Veiðistaðalýsingar frá Hafralónsá í Þistilfirði og Mýrarkvísl prýða og blaðið. Ingvi Örn Ingvason, sonur Ingva Hrafns, skrifar um þrjá ættliði við Fljótáa og Haraldur Eiríksson segir okkur frá sjóbirtingum í Kjósinni. Loks vildi ég nefna að skráðar eru sögur úr Straumfjarðará, auk fleiri pistla og greina eftir m.a. Árna Pétur Hilmarsson, Reyni M Sigmundsson, Val Pálsson og Guðmund Þór Róbertsson.“