Laxveiði í sjó hefur verið bönnuð með lögum hér á landi síðan á fjórða áratugnum, en öðru máli gildir um veiðar á göngusilungi í sjó. Er þá átt við veiði í net. Hins vegar er ekkert eftirlit með þeim veiðum.

Það er einkum sjóbleikja sem veidd er í net í sjó, en með fækkun hennar og aukinni útbreiðslu sjóbirtings hefur hlutdeild hans í aflanum án efa aukist. Þessar veiðar hafa einkum verið á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Margir landeigendur hafa aðstæður og réttindi til að stunda þessar veiðar og margir nýta það, í minna eða meiri mæli. Lítið er vitað um það annað en það sem sögusagnir segja, en fáum sögum fer þó af þessum veiðum líkt og t.d. netaveiðum á sjóbirtingi í Kúðafljóti.  Af þessum sökum er athyglisvert að skoða það sem Guðni Guðbergsson segir um veiðar á göngusilungi í sjó í inngangi að skýrslu sinni um veiðina 2015, sömu skýrsluna og við vitnuðum í vegna annarrar fréttar fyrr í vikunni. Hann segir:

„Í gildandi lögum um lax- og silungsveiði (Nr. 61/2006) er netaveiði á silungi í sjó heimiluð en einungis frá þeim jörðum sem sýnt geta fram á að hafa stundað slíkar veiðar á árunum 1952-1957 en þessi ákvæði hafa verið í lögum síðan 1957. Miðað er við að veiðiaðferðir og veiðitæki haldist óbreytt. Mikilvægt er að bæta skráningu á silungsveiði í sjó og skrá þá aðila sem slíkan rétt hafa og jafnframt að meta útbreiðslu og veiðiþol þeirra stofna sem veitt er úr þar sem oft er veitt úr blönduðum stofnum þar sem tveir eða fleiri stofnar ganga á sömu beitarsvæði í sjó. Athygli vekur að afar fáir aðilar hafa skilað skýrslum um silungsveiði í sjó á undanförnum árum og enginn veiðiréttarhafi hefur skilað veiðiskýrslum um silungsveiði í sjó frá árinu 2007.“

Ýmsir viðmælendur VoV telja að gera þurfi gangskör að því að athuga með þetta því að orðrómur hefur lengi verið um að víða, og þá einkum á Norðurlandi, sé umtalsverð laxveiði í þessi silunganet.