Veiðimynd ársins komin strax?

Hilmar með drjólann. Myndina fengum við af FB síðu Laxár í Aðaldal.

Veiðimynd ársins? VoV hefur ekki verið að standa í svoleiðis vali allar götur frá 2005 þegar við byrjuðum. En stundum stungið upp á kandídat eða bent á mynd sem væri frekar spes. Við erum með eina svona núna.

Það er stórlaxaskelfirinn Hilmar Hansson með 101 cm hæng úr Miðfosspolli. Hvað er merkilegra við þessa mynd en svo margar aðrar frábærar sem veiðimenn og konur hafa tekið og birt. Allt er þetta auðvitað matsatriði og ekki ætlunin að gera lítið eða minna úr öðrum myndum. En:

Hilmar tók þessa mynd sjálfur.

Veðrið er ömurlegt, norðan áhlaup, rignin og næstum frost.

Brosið.

Eljan.

Myndin hæfilega óskýr útaf skilyrðunum….sýnir svo svart á hvítu hvað veiðimenn vaða mikinn eld og ís til að friðþægja sálu sína.

Svo er laxinn helvíti stór. Þessi mynd hefur allt.

Og við gætum haldið áfram. Einu sinni mæltum við fyrir mynd sem Jón Hrafn Karlsson tók við Eldvatn í aprílmánuði….að loknu hreti. Álftahópur flaug upp ána og það var til marks um að vetur væri hættur. Þessi mynd er öðru vísi, það er eins og að annað hvort hafi vetur ekki slakað á klónni eða að það hausti í júlí. Hvort sem er, veiðimenn verða ekki slegnir niður. Hilmar er persónugervingur íslenskra veiðimanna, ekkert nema ástríðan og dugnaðurinn.