Dagur stórlaxa á Nesveiðunum

Hér er Ingvi Örn Ingvason með risann af Hólmavaðsstíflu. Myndina mun hafa tekið Ari Hermóður Jafetsson sem að var leiðsögumaður Ingva og myndina fundum við á FB síðu Ingva.

Dagurinn í dag var stórlaxadagur í Laxá í Aðaldal, á Nessvæðunum, og meðal þeirra laxa sem veiddust var sá stærsti sem heyrst hefur af í sumar, 110 cm hængur sem tók á Hólmavaðsstíflu. Annar var 100 cm og sá þriðji 96 cm.

Jón Þór Ólason með metershænginn.

Það voru frændurnir Jón Þór Ólason, formaður SVFR og Ingvi Örn Ingvason sem drógu stóru drjólana. Eitthvað mun á reiki með þyngd svona trölla, en Ingvi segir frá því að skv kvarða sé um 31 punds lax að ræða. Það mun vera kvarðinn sem notaður er í Nesi og einnig víðar og eru þá „ensku“ pundin. Kvarði VMST notar hins vegar gamla góða kílóið og samkvæmt honum er um 13,1 kg lax að ræða. Annars eru þessir kvarðar bara viðmið, en eins og sjá má er lax Ingva afar þykkur og kviðsíður, ummálið 56 cm. Lax Jóns Þórs er samkvæmt kvarða VMSt (sem er reyndar Hafró í dag) 10 kg. Tröllið mikla tók annars Sunrey Shadow.