Reykjadalsá
60 cm smál í góðu standi. Mynd -gg.

Smálaxinn virðist vera að ganga óvenjulega snemma þetta sumarið og það vita þeir sem reynsluna hafa, að svoleiðis háttalag hefur oftar en ekki vitað á mjög góðar smálaxagöngur á umræddum sumrum.

Norðurá var ein þeirra áa sem opnaði fyrst, eða þann þriðja. Alls veiddi opnunarhollið 33 laxa og þar af voru þrír undir 70 sentimetrum, sem er stórlaxaviðmiðið. Vissulega gæti tæplega 70 sentimetra lax verið 2 ára, en tveir þessara laxa voru nær 60 sm og verða því að teljast stórir smálaxar. Fleiri sáust. Næsta holl veiddi aðra 33 laxa á tveimur dögum og þar af voru fjórir smálaxar. Einar Sigfússon, sölustjóri Norðurár sagðist afar ánægður með þessi teikn, „margir höfðu spáð góðum smálaxagöngum og þetta er vísbending um að það gæti gengið eftir. Þá hefur komið skemmtilega á óvart hversu lífleg stórlaxagengdin hefur verið í upphafi vertíðar því það var alveg eins búist við því að lítið yrði af þeim laxi í sumar,“ sagði Einar í samtali við VoV.

Og fjörið heldur áfram, í fyrramálið opna bæði svæði Þverár í Borgarfirði, þ.e.a.s. Þverá og Kjarrá. Langt er síðan að menn urðu varir við fiskigengd í ána og má því búast við fjörlegum tíðindum af báðum svæðum.