
Þó að laxveiðin hafi verið á rórri nótunum það sem af er í Laxá í Aðaldal þá lúra tröllin þar enn. Í gærkvöldi kom t.d. 103 cm bolti á land.
Í færslu á FB síði Laxár í Aðaldal stendur með meðfylgjandi mynd: „Ósvikin gleði. Herra Robert Taubman með 103 cm hrygnu sem hann fékk á Grundarhorni í kvöld (gærkvöldi). Hún tók á Sunray.“
Þetta mun vera fimmti laxinn um og yfir meterinn sem veiðst hefur í Laxá það sem af er sumri og nokkrir til viðbótar hafa verið mjög ríflega 90 plús sentimetrar. Þannig að þó að menn kysu að sjá sterkari göngur og meiri veiði, þá gerast ævintýrin enn.