Jóhannes Sturlaugsson með einn af kóngunum í Öxará.

Jóhannes Sturlaugsson hjá Laxfiskum stendur eina ferðina enn fyrir Urriðagöngunni upp með Öxará á Þingvöllum. Þeir sem heimsótt hafa svæðið á haustin þegar urriðinn er farinn að ganga geta vitnað um að það sem fyrir augu ber er einstakt á heimsvísu. Þarna eru risar, 10 til 30 pund í hundraða tali. En gefum Jóhannesi orðið:

„Urriðagangan 2019 – Hin árlega urriðaganga við Öxará á Þingvöllum verður laugardaginn 12. október og hefst klukkan 14:00 við brúna/bílastæðið þar sem forðum stóð Valhöll. Þaðan er síðan genginn örstuttur spölur eftir mjög góðum göngustíg upp með Þingvallabænum að flúðunum undan Drekkingarhyl, þar sem urriðar eru settir í glerbúr á árbakkanum svo yngsta kynslóðin geti skoðað fiskinn betur. Fjallað verður um ástir og örlög urriðans, ekki síst með vísun í lifandi dæmi frá hrygningunni í Öxará í bakgrunni. Komið verður inn á hvernig urriðarnir nýta mismunandi svæði Þingvallavatns árið um kring og sá sama hátt verður greint frá ferðum bleikja í Þingvallavatni, kuðungableikju, ránbleikju og murtu. Langtímaveðurspá gerir ráð fyrir góðu útivistarveðri á Þingvöllum á meðan göngunni stendur, lofthita upp á um 6-7°C og hægviðri.“