Brá, Vatnsdalsá, Ólafur Vigfússon

Út er komin stórmerkileg bók. Nafn hennar er „Á fiskivegum“ og undirtitillinn Laxastigar og laxalíf Vífils Oddssonar verkfræðings, og er skrásetning Þórs Sigfússonar. Verkfræðingurinn Vífill hefur hannað stóran hluta fiskvega á Íslandi og hér er sagan rakin.

 

Vífill Oddsson
Vífill Oddsson með fallegan lax.

Vífill hefur komið að gerð furðu margra fiskvega hér á landi og þekktastur er hann fyrir aðkomu að risaverkefninu að gera Langá á Mýrum laxgenga alveg upp að Langavatni. Hann er líka í Streng sem hefur gerbreytt Selá í Vopnafirði, annars vegar með stiga í Selárfossi og hins vegarí Efrifossi. Báðar eru árnar í röð bestu laxveiðiáa landsins og bötnuðu margdfalt við umræddar fiskvegagerðir.

 

Fiskvegir eru óvenju algengir hér á landi miðað við nágrannalöndin og ekkert skrýtið ef út í það er farið, landið er hálent og hallar skart fram. Fiskvegagerð hér á landi hefur aukið hrygningar- og búsvæði laxa um 40 prósent frá árinu 1932 þegar ævintýrið byrjaði. Vífill hefur komið að ótrúlega mörgum laxastigum á löngum ferli sínum og segir í bókinni frá aðkomu að fiskvegum í Langá, Selá, Víðidalsá, Gljúfurá, Miðfjarðará í Bakkaflóa og Ytri Rangá.

 

Við lokum þessu með lýsingu Vífils á því hvernig stigagerðin í Selárfossi virkaði þegar upp var staðið: „Þá gerðist það. Pabbi var við Skipahyl. Búinn að setja út maðkinn og flotholtið og beið sallarólegur á þessum fallega stað, að hann sofnaði. Allt í einu var rykkt í stöngina, pabbi rauk á fætur og litlu síðar lá myndarlegur Selárlax á árbakkanum. Fyrsti Selárlaxinn fyrir ofan foss var kominn á land. Það var mikil gleði þegar pabbi veiddi þennan lax í Skipahyl og glatt á hjalla á Leifsstöðum um kvöldið.Ég veiddi svo annan laxinn fyrir ofan Skipahyl. Staðurinn var naflaus og það hafði verið ákveðið að sá sem veiddi fyrsta fisk á stað , sem ekki hafði nafn, fengi nafn sitt á hylinn. Þannig varð til Vífilsfljót.“