Sæsteinsuga, steinsuga, steinsugubit
Eina tilvikið svo vitað sé, að sasteinsuga hafi komið hér fram í fersku vatni. Lax veiddur í Ytri Rangá 2009 var með þetta höfuðskraut, en yfirleitt sleppir sugan takinu þegar fiskarnir ganga í ferskt vatn.

Getur verið að steinsugu fækki fyrir Suðurlandi? Það er að minnsta kosti skoðun eins nauðaknnugs veiðimanns og leigutaka í Vestur Skaftafellsýslu. Hann segir að allra síðustu árin hafi nýjum sugubitum fækkað á fiski.

Sæsteinsuga, steinsuga, steinsugubit
Lifandi sæsteinsuga, komin á land í Sandgerðishöfn. Myndin er fengin af vef Sandgerðisbæjar og var tekin 2008.
Um er að ræða Jón Hrafn Karlsson, einn leigutaka Eldvatns í Meðallandi, en eins og kunnugt er þá var mikil aukning í því fyrir um tíu til fimmtán árum að sjóbirtingar sem veiddust væru bitnir af steinsugu. Þetta eru stór og ljót sár, djúpt inn í hold og voru sárin ýmist ný eða gróin. Steinsugur hafa gert mikinn usla á fiskistofnum þegar þær hafa komið óvænt og óboðnar inn í vistkerfi þar sem þær voru ekki fyrir. T.d. í Vötnunum miklu á mörkum Bandaríkjanna og Kanada. Létu fiskistofnar mjög á sjá og tók þá árafjöld að leita jafnvægis á ný.

Það var því mál manna að steinsugan væri að nema hér land enda þóttu vaxandi hlýindi bjóða sugunum upp á batnandi viðurværi. Þær höfðu lengi veiðst í sjó fyrir Suðurlandi sem flækingar, en þeim tilvikum fjölgaði samhliða því aukin tíðni sugubita á sjóbirtingum var numin.

Sæsteinsuga, steinsuga, steinsugubit
Þessi burstar ekki tennurnar. En að gríni slepptu þá má sjá hvers vegna laxfiskar geta ekki einfaldlega hrist þennan ófögnuð af sér. Þetta bítur sig fast og læsir eins og skrúfstykki. Myndin er af vef Sandgerðisbæjar og er frá 2008.

Sugubit fundust einnig á löxum í landshlutanum en ekki í eins miklum mæli, enda var bittíðnin mest í Vestur Skaftafellssýslu þar sem sjóbirtingur er ráðandi, en laxastofnar mun smærri. Algengast var að bit væru á löxum í Rangárþingi.

Bittíðni náði hámarki um og uppúr 2005-2006, en Jón Hrafn telur sig sjá þess merki að dregið hafi mjög úr tíðninni. „Ég er mikið að snúast í kringum birting við Eldvatn, sé marga fiska sem á land koma og fyrir mér eru þetta fyrst og fremst eldri bit sem maður sér nú orðið. Þetta hefur aðallega verið á stórum þroskuðum fiskum, en sjaldan eða aldrei á smáum fiski, sem rennir stoðum undir að árásin sé svo svæsin að þeir smærri lifi hana ekki af.

Sæsteinssuga, steinssuga, steinsugubit
Sjóbirtingur með tvö opin sár. Myndin var tekin 2006. Myndin er frá Veiðimálastofnun.

Hins vegar er þroskaður sjóbirtingur gríðarlegt hörkutól og virðist þola mikið. A.m.k. eru dæmi um að slíkir fiskar finnist með fleiri en eitt bit, jafnvel allt að þrjú til fjögur,“ sagði Jón Hrafn.

Fyrir nokkrum árum, er bittíðni var sem hæst, leituðu sérfræðingar Veiðimálastofnunar að steinsugu í fersku vatni. Var leitin fyrst og fremst gerð þar sem búsvæðu voru talin líkleg og hentug. Hvorki fundust sugubæli, seiði (eða lirfur) eða fullorðnir fiskar. Aðeins einu sinni, svo vitað sé, hefur lifandi fullorðin suga komið fram hér í fersku vatni, en þá veiddist 5 punda lax við Ægissíðufoss í Ytri Rangá. Næstum jafn löng steinsuga hékk föst á hausi hans.