Laxveiðin í sumar, betri eða lakari? Góð eða slæm? Miðað við síðasta sumar þá er þetta hátíð, en síðasta sumar var auðvitað ömurlegt. Þess vegna er nærtækara að bera þetta sumar saman við 2018, frekar en 2019. 2018 var skikkanlegt veiðisumar. Við skulum skoða þetta.
Þegar angling.is birti síðast vikutölur þá var viðmiðunardagurinn 29.7. Sambærilegur viðmiðunardagur á angling.is sumarið 2018 var 25.7. Það munar tveimur dögum sem skilar varla skekkjumörkum. Og skoðum þá ellefu aflahæstu árnar. Fyrsta talan er heildartalan þann 29.7, í sviganum kemur sambærileg tala frá 2018. Loks koma lokatölur þessara áa frá hörmungarsumrinu í fyrra.
Eystri Rangá 3308 (1070) – 3048
Ytri Rangá/Hólsá 1140 (1114) – 1675
Urriðafoss 753 (955) – 747
Miðfjarðará 729 (1058) – 1606
Norðurá 645 (1231) – 577
Haffjarðará 566 (948) – 651
Þverá/Kjarrá 538 (1817) – 1133
Affall 516 (73) – 323
Selá 482 (492) – 1484
Langá 475 (843) – 659
Hofsá 404 (280) – 711
Þetta er athyglisverð statistík eins og sjá má, þetta sumar er að sönnu mun betra en í fyrra, en talsvert lakara heldur en sumarið 2018. Á sama tíma eru sumar árnar þegar komnar yfir heildartölu síðasta árs.