Þingvallavatnið allt komið í gang

Glæsifiskur úr Villingavatnsárósi, æði vetrarlegt þarna. Vei'ðimaðurinn mun vera Jóhann Davíð Snorrason, Kolskeggurinn sjálfur. Mynd er fengin hjá Fish Partner

Vorveiðin stendur enn í blóma. Nægur sjóbirtingur er enn í ánum og urriðaveiðin, t.d. í Þingvallavatni gengur vel. Dagarnir eru misgóðir að venju og fer eftir aðstæðum sem náttúran býður upp á, auk tækni og getu þeirra sem standa með stangirnar. En nóg er af fiskinum og margar fregnir í vor af gríðarlega vænum fiskum sem endranær.

Í Þingvallavatni er oftast mest talað um hin svokölluðu ION svæði sem samanstanda af Þorsteinsvík og Ölfusvatnsárvík í sunnanverðu vatninu. En fleiri svæði eru gjöful og menn eru t.d. farnir að setja í stóra fiska í landi Þjóðgarðsins.

Þá hafa fleiri svæði verið að koma til eftir kalda daga í byrjun mánaðar. Fish Partners eru t.d. með Kárastaði og Villingarvatnsárós á sínum snærum og þar hefur verið líf og fjör. Þeir félagar Sindri og Kristján Rafn segja: „Þó að stóri fókusinn sé á sjóbirtingi á þessum árstíma þá eru einnig tíðindi á svæðum okkar í Þingvallavatni sem frægt er orðið að endemum fyrir risavaxna ísaldarurriðana. Eftir fremur kalda og rólega byrjun er t.d. Kárastaðasvæðið farið að gefa. Svæðið er í norðanverðu vatninu skammt frá útfalli Öxarár. Menn hafa verið að setja í flotta fiska þar.

Þá hafa komið algerlega geggjaðir dagar í Villingavatnsárósnum. Þar fór einnig rólega af stað, ís og kuldi, en upp á síðkastið hafa verið magnaðir dagar þar sem stangirnar eru að taka upp í 20 fiska á dag, allt boltafiska.“