Norðurá, Brotið
Veiðimenn að skyggna Brotið í Norðurá. Mynd Heimir Óskarsson.

Þessa daganna sést til laxa vítt og breytt, enda er orðið örstutt í opnun fyrstu áa. Við greindum frá Blöndu í gær og þar áður Laxárnar í Kjós og Aðaldal. Getum bætt Norðurá við núna.

Þannig var að menn voru að svipast um í ánni um helgina og um tíma voru skilyrði heppileg. Þá sáu menn glöggt ofan af klettunum átta laxa á Brotinu fræga. Fyrst að svo líflegt var norðanmegin má fastlega búast að fleiri hafi verið yfir á Eyrinni og síðan verður ekkert skyggnt að gagni við Skerin og upp allan Konungsstrenginn. Menn eru strax farnir að tala um að aðstæður til göngu séu það heppilegar að lax gæti verið kominn upp í Berghylsbrotið þegar opnað verður, en að þessu sinni verður það laugardaginn 3.júní. Mun breytingin stafa af óskum landeigenda, en þeir taka jafnan ríkan þátt í opnuninni og þar sem þessa helgi ber upp á Hvítasunnuna, þá eru þeir margir uppi fyrir haus í undirbúningi vegna ferminga og fleira.