Urriðafoss, Blanda og Brennan leiða hjörðina

Það er að veiðast lax í Þjórsá víðar en undir Urriðafossi, þessi veiddist í veiðistaðnum Sog, sem er efsti staður á næsta svæði fyrir ofan Urriðafoss. Veiðimaður er Árni Ingvarsson og myndina fengum við af FB síðu IO veiðileyfa

Fyrstu vikutölur Angling.is birtust á síðu LV í gærkvöldi. Lítið er að vísu búið að gerast, en þó má sjá hreyfinga sem verið hefur síðustu daga og vikur. Sumar af ánum eru þarna inni með sínar fyrstu tölur, aðrar sýna veiði á milli vikna. Urriðafoss trónir hæstur eins og búast mátti við, veiðin hefur þar verið best og staðið lengst. En kíkjum á.

Urriðafoss var með sína fyrstu vikutölu (6 dagar í þessu tilviki) þann 6.6 og voru þá komnir 78 laxar á land. 12.6 voru laxarnir orðnir 184 eftir 106 laxa viku. Í gærkvöldi var heildartalan komin í 256 og hafði vikuveiðin heldur dalað og stóð í 72 löxum. Fínasta veiði.

Blanda opnaði 5.júní og fyrsta tala úr henni var 12.júní, þá voru komnir 54 laxar í bók. Í gærkvöldi stóð talan í 85 löxum og hafði þá 31 lax veiðst um vikuna.

Brennan er í þriðja sætinu. Hún opnaði 5.6 og var í fyrstu inni í róteringu Þverár og hélt öllu gangandi, enda Þveráin afar erfið sökum vatnsskorts.  12.júní hafði svæðið skilað 35 löxum og í gærkvöldi var heildartalan komin í 54 laxa eftir 19 laxa viku. Miðað við hversu snemma er vertíðar, þá er þetta flott tala úr Brennu. Öðru máli gegnir um Þverá/Kjarrá sem ekki var komin með nýja tölu fyrir 19.6 í gærkvöldi og talan frá 12.6 er 4 laxar. Við vitum þó að eitthvað hefur tínst á land og vonandi að ný tala detti inn sem fyrst.

Miðfjarðará datt inn með sína fyrstu tölu í gærkvöldi, sem raunar var fjögurra daga veiði. Flott þar miðað við aðstæður, 24 laxar.

Norðurá hefur verið umtöluð vegna vandræða með vatnsmagnið. Talan hennar frá í gærkvöldi er 11 laxar, en talan frá 12.6 var 7 laxar, vikan gaf því 4 laxa. Það er að sönnu afar rýr eftirtekja, en hrein hátíð samt ef miðað er við töluna sem upp var gefin þann 12.6. Þá stóð áin í 7 löxum. Hún var opnuð að morgni 4.6 og veiddust allir laxarnir sjö þann morgun. Það þýðir að við tóku 17 vaktir án þess að lax kæmi á land. Að það kroppist upp fjórir síðustu daga er því framför og sýnir að það er von. Hins vegar hafa skilyrði lítið batnað þar frekar en í öðrum ám á vestanverðu landinu

Grímsá, nýbyrjuð var líka með sína fyrstu tölu í gærkvöldi. 10 komnir á land þar og allir sáttir vegna þess hve slæm skilyrðin voru.

Aðrar ár með sína fyrstu tölu á angling.is í gærkvöldi voru Laxá í Kjós með 3 laxa, nýbyrjuð og erfið, og Fnjóská með einn lax, en síðan hafa einhverjir til viðbótar verið dregnir á þurrt.