Arnar Óskarsson með fallegan geldbirting, hollið hans lenti í geldfiskagöngu og er frábært að heyra að upp séu að koma nýir árgangar, enda eru þeir risastóru orðnir háaldraðir og fara að hverfa yfir móðuna miklu.

Mikið hefur rignt af og til á Suðurlandi að undanförnu og í Vestur Skaftafellssýslu hefur bæst við flóruna eitt stykki Skaftárhlaup. Þannig að nóg hefur verið vatnið. Þegar það er of mikið, þá er það of mikið, en þegar sjatnar koma oftast skot ef eitthvað er af fiski. Og þannig er staðan nú.

SVFK er með Geirlandsá sem fór á „yfirfall“ á dögunum, þá voru stjórnarbræðurnir Gunnar og Arnar að veiðum með sínu fólki og skýrsla Arnars var þessi: „Við vorum ásamt fríðu föruneyti voru í ánni 12- 14 sept og lentum í mikilli rigningu og áin fór á yfirfall á fyrstu vakt og þurftu veiðimenn og konur ađ drífa sig úr Eyjahyl til ađ komast yfir ána upp í bíl. Ekkert hægt ađ veiđa á heila deginum vegna vatnavaxta en svo á síðustu vakt var áin ađ jafna sig og þá var mikið fjör og sett í 10 birtinga sem fengust á Görðum, Ármótum og Tóftarhyl, flottir geldarar frá 3 pundum upp í 5 pund, birtingur að stökkva um öll Ármót.“
Síðan leið eitt holl án fregna, en skilyrði góð og eflaust góð veiði. Síðan komu Guðjón Þórhallsson og hans hópur og skýrsla þeirra á vef SVFK var á þá leið að það hefði verið mikið stuð, sett í 22 birtinga og mikið af fiski væri að ganga núna. M.a. var sett í sjö stykki í beit á Görðunum sem er neðsti veiðistaður árinnar. Hópurinn setti í fiska miklu víðar, m.a. í Höfðabólshyl og Eyjahyl, en sá síðarnefndi er mjög ofarlega í ánni. Þá væru Ármótin full af fiski.