Urriði, Laxá í Laxárdal
Vel fimmtíu plús!

Veiði í Laxárdal í Suður Þingeyjarsýslu fór vel af stað í byrjun mánaðar, en svo hefur verið frekar lítið að frétta um tíma vegna þess að það eru gloppur í sölu og stundum fáir að veiða. Bjarni Höskuldsson umsjónarmaður svæðisins hefur sagt okkur að það sé uppgangur eftir nokkurra ára niðursveiflu. Við kíktum og erum sammála.

Jón Eyfjörð, Laxá í Laxárdal
Jón Eyfjörð með einn rígvænan!

Hluti af VoV teyminu eyddi einni kvöldstund í Dalnum í kvöld(gærkvöldi) eftir að hafa verið í Svartá og á Torfunum og Presthvammi og þessi vangavelta um stöðuna í Dalnum varð skýr. Það er uppsveifla. Mikið líf og stórir fiskar. Jón Eyfjörð greinir frá:  „Við fengum sex silunga í kvöld, Bæjarpollur, 63 cm á Rolluna nr. 12, Garðspollur, 59 cm á Glóðin græn nr 12, Ferjuflói, 2 stk, annar 56 cm á Glóðin rauð nr. 12 og hinn 62 cm á Rolluna nr. 12. Tveir í Djújpadrætti, 59 cm á Rektor nr. 6 og hinn á Sunray hexagon 1/2” og krók nr. 8. Samtals 6 stk og vorum við í hæsta máta ánægðir með vaktina, engu logið, mikið líf og fiskar stórir.

Sveinn Arnar, Laxá í Laxárdal
Rollan hans Sveins Arnars í kjafti urriðabolta í Dalnum. Myndir tók Jón Eyfjörð
Laxá í Laxárdal
Þeir voru stórir í Laxárdalnum og meðalþyngdin þar er geggjuð.

Það eru komnir um 220 silungar hér í Dalnum í vor, sá stærsti 71 cm og þá eru fimm stk skráðir 70 cm. Bjarni Höskuldsson segir að hér sé mun meira líf nú en í fyrra. Ég tek undir það, var hér á svipuðum tíma í fyrra og þá og það er ekki líku saman að jafna…”