Minnivallalækur, Arnarhólsflúð
Arnarhólsflúð í Minnivallalæk ljósaskiptunum. Mynd -gg.

 

VoV vísiteraði Minnivallalæk í lok vikunnar. Vorið hefur verið kalt og frekar erfitt, en áin er full af fiski og það er alltaf sama skemmtilega krefjandi verkefnið að finna út úr því hvað urriðanum þóknast að taka.

Minnivallalækur
50 sentimetra urriði úr Stöðvarhyl, hann gefur flugunni illt auga… Mynd -gg.

Samkvæmt gesta- og veiðibók hefur ekki verið fullbókað í ána í vor, enda bóka hana margir þegar útséð er hvort að vorið verði kalt, hlýtt eða einhvers staðar þar á milli. Apríl var kaldur og mai rysjóttur . En veiði hefur verið í lagi þegar veitt hefur verið. Einn veiðimaður bókaði sjö fiska sama daginn, en þó eru aðeins komnir um 25 í bók. Minnivallalækur hefur alltaf verið um gæði frekar en magn. Þar eru stórir fiskar og nú þegar eru komnir fjórir í kringum 70 sentimetrana og all nokkrir um og yfir 60 sm. Fáir eru smáir.

Það var ennþá rok og kuldi þegar VoV var á vettvangi og ekki sérlega kræsilegt að standa úti við veiðiskap. Við bara rétt bleyttum færi og afraksturinn var einn 50 sm urriði. Og eftir allt tal um þessa tæknilegu erfiðu á, þá gat atburðurinn varla verið meira „basic“, Stöðvarhylur á Black Ghost. VoV á í nokkru vinfengi við þá sem við tóku og dvöldu yfir helgina. Einn þeirra er Baldur Svavarsson og hann hafði þetta að segja:   „Áin er full af fiski. Sat lengi yfir Túnhyl og reyndi við einhverja 8-10 höfðingja. Allar aðferðir og flugur – nema stóra steamera. Reyni það næst!“