Ekki mikið að breytast

Þór Agnarsson með 95 cm hæng úr Svartá á Frigga (Tvíburann).

Þá eru vikutölur angling.is komnar og ljóst endanlega að þetta laxveiðisumar mun teljast með þeim slakari. Talað var lengi um að ár víða um land „ættu mikið inni“, sem þær gerðu, loksins þegar einhver væta gerði vart við sig. En þær áttu ekki nóg inni til að snúa einhverju við. Stöku á er með hærri tölu en í fyrra, en það er ekki glæsilegt viðmið, því 2020 var ekki annað en smá framför frá hörmungunum 2019.

Albert Erluson með 80 cm hrygnu á þýskan Frigga úr Svartá. Myndirnar tók Baldur Hermannsson sem skýrir flugnavalið því hann er höfundur Frigga seríunnar.
Það voru „maðkaopnanir“ í báðum Rangánum, sem ætti fremur að kalla Tóbíopnanir því menn eru ekki mikið að renna maðki í Rangánum. Ef það er ekki fluga, þá er það spúnn. Og vissulega kom kippur í Rangárþingi, Ytri var með vikutölu upp á 435 laxa á á níunda tug laxa á land á fyrstu vakt Tóbítímans. Eystri var á sama tíma með 380. Samtals er Ytri Rangá ásamt vesturbakka Hólsár með 2387 laxa, Eystri Rangá með 2218, en hærri tölu en Ytri ef að eystri bakki Hólsár væri tekinn með eins og vesturbakkinn fylgir Ytri. En hvað sem svoleiðis pælingum líður þá er Eystri langt frá sínum tæpu tæiu þúsund löxum frá í fyrra, en Ytri að rúlla á svipuðu róli og síðustu sumur, kannski ívið betri.
Af sjálfbæru ánum er eins og svo oft áður Miðfjarðará sem spjarar sig og var með 119 laxa viku. Hún er i þriðja sæti með 1428 laxa, en erfitt að sjá að hún nái síðasta árs tölu sem var 1725. Hvað svo sem segja má annað um Norðurá og Þverá/Kjarrá, þá eru þær vissulega komnar yfir lokatölu síðasta sumars, en 1337 í Norðurá eftir 52 laxa viku er ekki beysið þó að framför sé, og Þverá/Kjarrá hafði skriðið yfir töluna sína þann 1.9 en nýjar tölur hafa ekki borist þaðan.  Þá eru Flóka, Straumfjarðará, Laxá í leirársveit og Víðidalsá eitthvað lítillega betri en í fyrra og segja má að Laxá í Aðaldal, Grímsá og Elliðaárnar seú á líku róli og í fyrra, sem var ekkert sérlega gott ról.
Þetta geta lesendur allir skoðað á angling.is, en þó að sumarið sé á heildina litið slakt, þá hafa margar veiðisögurnar orðið til og vo má ekki gleyma að það er fleira fiskur en lax og víðast hvar hefur silngsveiði verið mjög góð og sjóbirtingsvertíðin að fara vel af stað.