Alveg frá síðsumri og langt fram eftir hausti bárust fregnir af mjög góðri sjóbirtingsgengd í ám í Vestur Skaftafellssýslu. Fengu menn á tilfinninguna að göngur væru bæði óvenju snemma og óvenju sterkar. Það gekk eftir, samanber þessar fregnir frá Eldvatni í Meðallandi.

Jón Hrafn Karlsson við Eldvatn
Jón Hrafn Karlsson við Eldvatn

Jón Hrafn Karlsson leigutaki Eldvatns skrifaði eftirfarandi á eigin status á FB og á FB-síðu Eldvatns: „Óhætt er að segja að veiðin í Eldvatni í Meðallandi hafi gengið glimrandi vel árið 2016 og þarf að horfa aftur til ársins 1975 til að finna fleiri skráða sjóbirtinga veidda á stöng. Heildarveiðin endaði í 378 fiskum sem skiptist þannig að sjóbirtingar voru 344 , laxar 21 og 13 bleikjur. Stærsti sjóbirtingurinn sem veiddist var 91cm að lengd en 15 sjóbirtingar komu á land sem mældust lengri en 80cm.

Horfurnar eru góðar fyrir vatnasvæðið , það er eindóma mat vanra veiðimanna að aldrei hafi sést jafn mikið af smáfiski ( 35-50cm ) í Eldvatninu og stálpuð seiði er að finna um alla á. Þær gleðifregnir bárust síðan í haust að í Eldvatnsbotnum skal sleppa öllum sjóbirtingi árið 2017 og fögnum við því að vatnasvæði Eldvatns geti haldið áfram að blómstra sem heimkynni stórra sjóbirtinga.

Í ljósi þess að hrygningaskilyrði eru erfið á vatnasvæði Eldvatns þá var 7.500 sumarölnum sjóbirtingsseiðum sleppt í Eldvatn í september , 2-4 grömm að þyngd. Klakfiskarnir eru teknir í hliðarlæk Eldvatnsins þegar að hrygningu kemur, eru kreistir á bakkanum og sleppt aftur lifandi.“

Allt kemur þetta heim og saman við fréttir af öðrum ám á svæðinu, undir lokin höfðum við t.d. eftir Ólafi Guðmundssyni að Tungufljót væri „smekkfullt af fiski“ og svipaða sögu sagði Þórarinn Kristinsson eigandi Tungulækjar, en þar voru fyrstu göngurnar að skila sér um miðjan júlí. Fossálar voru og mjög flottir að ógleymdri Geirlandsá og Vatnamótunum.