Laxatorfa. Mynd Heimir Óskarsson.

Friðleifur Egill Guðmundsson fer nú fyrir Íslandsdeild NASF, en strúktúr sjóðsins hefur breyst nokkuð eftir lát Orra Vigfússonar sem stofnaði sjóðinn forðum og rak hann þar til yfir lauk. Augljóslega hefur NASF ekki slegið slöku við miðað við þessa stórmerku fréttatilkynningu sem hann sendi okkur.

Risasamningar um laxavernd í höfn. Verndarsjóður villtra laxastofna (NASF) og ASF undirrita 12 ára laxasamning við grænlenska sjómenn og framlengja verndarsamning við Færeyinga sem hefur verið í gildi síðan árið 1991

The Atlantic Salmon Federation (ASF) og Verndarsjóður villtra laxastofna (NASF, North Atlantic Salmon Fund) tilkynntu í dag að þau hefðu undirritað samninga við sjómenn á Grænlandi og í Færeyjum, sem munu forða þúsundum fullorðinna Atlantshafslaxa frá úthafsveiðum í net og þannig auka líkurnar á að þeir nái að snúa aftur til hrygningar á æskustöðvum sínum í ánum í kringum Norður Atlantshaf.

Nýi grænlenski laxverndarsamningurinn er til tólf ára (2018-2029). Fulltrúar ASF, NASF og Félags veiðimanna á Grænlandi (KNAPK, Kalaallit Nunaanni Aalisartut Piniartullu Kattuffiat) skrifuðu undir samninginn 24. maí sl. í Reykjavík eftir liðlega heils árs viðræður. Færeyski samningurinn milli ASF, NASF og færeysku hagsmunasamtakanna Laksaskip var undirritaður daginn eftir og fylgir eftir fyrri uppkaupum NASF á veiðiheimildum til laxveiða í atvinnuskyni, sem má rekja allt aftur til 1991.

„Í þessari viku náðu NASF og ASF sögulegum áfanga í að tryggja verndun laxastofna með samningum við sjómenn á Grænlandi og í Færeyjum,“ sagði Friðleifur E. Guðmundsson, formaður NASF á Íslandi. „Með þessu höldum við áfram verndarstarfi stofnanda og formanns NASF, Orra heitins Vigfússonar. Orri lagði nótt við dag í meira en 27 ár í viðleitni sinni að vernda laxinn í Norður Atlantshafi, allt þar til hann lést í júlí á síðasta ári. Með því að tryggja þessa samninga nú hefst nýtt tímabil laxaverndar í Norður Atlantshafi og á alþjóðavísu, sem sýnir að við erum staðráðin í að endurreisa þessa villtu laxa­stofna í sitt sögulega hámark.“

Hafsvæðin umhverfis Grænland og Færeyjar eru mikilvægar fæðuslóðir villta Atlantshafslaxins sem gengur til sjávar úr hundruðum áa allt í kringum Norður Atlantshaf. Netaveiðar á þessum slóðum eru sagðar vera úr blönduðum stofnum sem geta ýmist verið í góðu ásigkomulagi eða í útrýmingarhættu. Þessar veiðar hafa því áhrif á laxagengd í ám sem eru hætt komnar, líkt og Penobscot áin í Mainefylki í Bandaríkjunum er dæmi um, og ekki síður St. John áin sem rennur í Fundy-flóa í New Brunswick, oft kölluð Rín Norður Ameríku, en á þessum slóðum töluðu Vínlandsfarar um að þeir hefðu veitt stærri laxa en þeir hefðu áður séð. Frægustu evrópsku laxveiðiárnar verða ekki síður fyrir áhrifum þessara veiða, svo sem áin Tweed í Skotlandi, Laxá í Aðaldal og Altaáin í Finnmörk í Noregi.

„Áhrifamesta leiðin til að tryggja að sem flestir hrygningarlaxar nái að snúa aftur til ánna sinna í Norður Ameríku og Evrópu er að draga verulega úr úthafsveiðum á villtum Atlantshafslaxi á hans helstu fæðuslóð,“ segir forseti ASF, Bill Taylor. Annars staðar eru veiðimenn enn að drepa allt of marga villta Atlantshafslaxa og íbúar Grænlands og Færeyja hafa sýnt í verki að þeir eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til að vernda laxinn.

„Besta leiðin til að bjarga villta laxinum í Norður Atlantshafi er að hætta að drepa hann. Þessi samningur gerir sitt svo um munar,“ fullyrti formaður NASF í Bandaríkjunum, Chad Pike. „Það er mikið áhyggjuefni hvað villta laxinum, táknmynd norðurslóða, hefur hnignað á undanförnum áratugum. Ástand laxastofnanna er til marks um þær hættur sem steðja að öllum sjávar- og ferskvatnslífverum. Umhverfisverndarsinnar, sportveiðimenn og sjómenn sem hafa lifibrauð sitt af veiðiskap sameinast allir um þennan samning sem er mikilvægt skref í að endurreisa laxastofna í Norður Atlantshafi.“

Samningarnir kveða á um að opinberar sendinefndir Grænlands og Færeyja hjá NASCO (North Atlantic Salmon Conservation Organization) munu ekki fara fram á neinn veiðikvóta í atvinnuskyni á fundi ráðsins, sem haldinn verður í júní í Portland í Mainefylki í Bandaríkjunum. Því má búast við að kynþroska lax sem hefði annars endað sína ævidaga í netum sjómanna á hafi úti muni ná að ganga upp í sínar heimaár vorið 2019.

Til að bæta grænlenskum sjómönnum það tekjutap sem þeir verða fyrir munu ASF og NASF styrkja aðra atvinnuþróun, rannsóknir og menntun frumkvöðla sem beita sér fyrir verndun vistkerfa hafsins. Veiðimenn á Grænlandi munu þó geta veitt allt að tuttugu tonnum af laxi á ári til eigin neyslu og sölu í heimabyggð líkt og verið hefur. Þá er hvataákvæði í samningnum, sem verðlaunar veiðimenn ef þeir nýta ekki þennan rétt.

Í Færeyjum hefur sögulegur samningur verið í gildi frá árinu 1991 þegar laxveiðum í sjó var hætt þar. Orri Vigfússon, stofnandi NASF, náði þeim samningi í félagi við framsýn stjórnvöld í eyjunum, sem voru frumkvöðlar í verndun sjávar á sínum tíma og hafa nýlega tekið forystu í að setja reglur um sjálfbært fiskeldi.

Eftir að samningurinn milli ASF, NASF og KNAPK tók gildi um veiðar á Grænlandi hafa bæði vísindamenn og stjórnvöld tilkynnt um að æ fleiri stórlaxar hafi náð að snúa aftur til heimkynna sinna í ám allt í kringum Norður Atlantshaf. Þess er vænst að með tólf ára áframhaldandi veiðihléi muni tvær heilar kynslóðir villtra Atlantshafslaxa njóta verndar sem dugi til að laxastofninn njóti verulega góðs af.

Í samninganefndinni voru formaður NASF á Íslandi, Friðleifur E. Guðmundsson og Elvar Ö. Friðriksson, auk stofnfélaga NASF Friðriks Þ. Stefánssonar og Jóns G. Baldvinssonar, og formanns ASF, Bill Taylors. Samningaviðræðurnar að þessu sinni byggðu á óslitnu ferli frá því að Orri Vigfússon lagði grunn að þeim árið 2017 með því að kalla sendinefndir frá Grænlandi og Færeyjum til fundarhalda hér á Íslandi.

Friðleifur leggur áherslu á að þessar samningaviðræður séu hluti af baráttu NASF fyrir laxavernd hér á Íslandi. „Villti laxinn er ein helsta auðlind Íslands. Með því að ná svona miklum og sýnilegum árangri í baráttunni fyrir vernd villtra laxa í úthafinu gerum við okkur vonir um að fólk skilji alvarleika málsins hér heima – því baráttunni lýkur ekki með því að stöðva úthafsveiðar á villtum laxi. Þau lög um fiskeldi sem nú liggja fyrir Alþingi gætu opnað fyrir óafturkræfan skaða á hinum heimsþekktu og heilbrigðu villtu laxastofnum hér á landi.  Með því að leyfa nánast óheft eldi á norskættuðum eldislaxi í opnum sjókvíum hér við land mun mengun frá eldinu fara út í hafið, sníkjudýr sem magnast upp í kringum eldið leggjast á villta laxfiska í umhverfinu og strokufiskar ganga upp í árnar til hrygningar og þannig veikla hina villtu stofna með eiginleikum sem henta vel í eldi – en alls ekki til að komast af í náttúrunni. Líf og örlög óteljandi kynslóða laxa eru í bráðri hættu. Við verðum að tryggja að hin alþjóðlega barátta til að endurreisa villta laxastofna við Norður Atlantshaf verði ekki að engu gerð með fyrirhyggjuleysi og yfirgangi fiskeldisfyrirtækja hér heima.“

Því fé sem þarf til að standa við skuldbindingar þessara samninga er öllu safnað hjá einkaaðilum og stuðningsfélögum ASF og NASF.