Tröllin farin að sýna sig í Tungufljóti

Kristján Páll með 82 cm birting úr Syðri Hólma í dag, tröllin að koma snemma þetta árið....

Stóru tröllin eru farin að skila sér í Tungufljót. Það er fyrr en venjulega samkvæmt reynslu VoV en það verður að segjast að við höfum ekki veitt þar síðustu árin. Þar er nú kominn birtingur víða um ána og lax líka.

Kristján Páll Rafnsson leigutaki setti í og landaði 81 cm birtingi í Syðri Hólma í dag, missti annan mjög stóran. Var áður búinn að landa öðrum sem var 81 cm. Hann sagði birtinginn að ganga snemma og nú væri fiskur í Syðri Hólma, Búrhyl, Hlíðarvaði og í Fossinum. Það væru komnir 10-15 laxar á land og voru milli 70 og 80 í fyrra. Talsvert af laxi í ánni. Það eru ekki sleppingar, fiskurinn er að sá sér sjálfur. Sjóbirtingum fjölgar í ánni dag frá degi og þeir væru hangandi í Syðri Hólma.

Óhætt er að segja að þetta veit á gott með komandi sjóbirtingsvertíð. Óskandi að menn verði eitthvað varir við geldfiska svo að þetta séu ekki gömlu áragangarnir að ganga sér til húðar. En er á meðan er…….