Í samantekt Guðna Guðbergssonar um laxveiðina 2015 er margt fróðlegt að finna sem flokkast nú fremur undir heimildir og þekking heldur en nýjustu fréttir, en þar var þó fleira að finna, m.a. stórmerkilega útskýringu á niðurstöðum rannsókna á erfðaeiginleikum laxa er varða hvort þeir verða stórir eða smáir.

Við skulum ekkert tvínóna frekar við þetta, gefur Guðna orðið: „Komið hefur í ljós að það er arfgengt hvort laxar dvelja eitt eða tvö ár í sjó. Í nýlegri grein sem birtist fyrir skömmu í vísindaritinu Nature er sagt frá rannsóknum sem sýndu að fundist hefur gen í laxi sem gegnir veigamiklu hlutverki í að ákvarða hvort Atlantshafslax gengur til hrygningar sem smálax (eitt ár í sjó) eða stórlax (tvö ár eða lengur) (Barson o.fl. 2015). Umrætt gen skýrir 39% breytileikans í kynþroskaaldri laxa og þar með stærð þeirra. Eftir því sem lax dvelur lengur í sjó fram að kynþroska, því stærri verður hann þegar hann gengur til hrygningar. Stórar hrygnur hrygna fleiri hrognum og stórir hængar eiga auðveldara með að tryggja sér aðgengi að hrygnum á hrygningarslóð.

Bandaríkjamaðurinn Chad Pike með fallegan stórlax, sem hann fékk í Fljótaá í Fljótum. Myndin er fengin frá NASF.
Bandaríkjamaðurinn Chad Pike með fallegan stórlax, sem hann fékk í Fljótaá í Fljótum. Myndin er fengin frá NASF.

Fundist hafa tvö meginafbrigði af geninu. Laxar sem erfa annað hvort afbrigði gensins geta sýnt eins árs mun í kynþroskaaldri. Laxar stækka með lengri dvöl í sjó, en við það aukast afföllin og eykur hættuna á að lifa ekki af fram að kynþroska. Kynin hafa leyst þessa valþröng á mismunandi vegu. Smálax framleiðir milljónir sæðisfruma, en verður að vera nægilega stór til að vinna slagsmálin við aðra hængi á hrygningartímanum í ánum. Á hinn bóginn þá eykst frjósemi (hrognafjöldi) hrygna með aukinni stærð þeirra.

Hængar og hrygnur hafa sama erfðaefnið og því má spyrja hvernig laxinn forðar því að náttúruvalið leiði til baráttu á milli kynja þar sem hvorki hængar né hrygnur verða kynþroska á hæfasta aldrinum. Þá er komið að afbrigðunum tveimur sem hægt er að nefna smálaxaafbrigði og stórlaxaafbrigði. Lax sem er arfhreinn með stórlaxaafbrigðið af geninu verður kynþroska seint á meðan lax sem er arfhreinn af smálaxaafbrigðinu verður smálax.

Það sem hins vegar kemur á óvart að lax sem er arfblendinn, skilar sér frekar sem stórlax ef kynið er hrygna, en smálax ef kynið er hængur. Kynbundnu áhrifin útskýra af hverju bæði afbrigðin geta varðveist í stofnum. Þessar niðurstöður sýna að ef veiðihlutfall er mis hátt á laxi eftir sjávaraldri getur veiði haft áhrif á erfasamsetningu stofna og hlutföll smálaxa og stórlaxa. Mögulegt er að veiðiálag hafi haft áhrif á sjávaraldur laxa í íslenskum ám en það er þáttur sem þarf að rannsaka frekar.“