Hver er efst, hver verður efst?

Það er fleira fiskur en lax, Jóhann Davíð birti nýverið mynd á heimasíðu Kolskeggs af þessari veiðikonu með fallega 65 cm bleikju sem var veidd á efsta svæði Eystri Rangár.

Sumir hafa gaman að því að velta fyrir sér „top tíu“ á lista laxveiðiáa hér á landi. Listinn er á angling.is þó að VoV hafi ævinlega frekar vilja rýna í meðallaxveiði á hverja stöng í hverri á. Það er kannski ekki tímabært að velta þessu upp núna, þar sem aðeins tveir dagar eru í nýjar vikutölur hjá angling.is. En hver er efst? Er það Ytri Rangá? Jahhh það er nú það.

Það er nefnilega þannig, að síðasta miðvikudagskvöld hafði Ytri mjakað sér fram úr Eystri Rangá, aðallega vegna þess að vænar rigningargusur hleyptu Eystri Rangá upp í kakóflóð.  En hvað ef talið væri með öðrum hætti. Jóhann Davíð Snorrason sölustjóri hjá Kolskeggi, sem er leigutaki Eystri Rangár og austurbakka Hólsár sagði t.d. eftir síðustu vikutölurnar: „Þegar loks fór að rigna í Rangárþingi þá fór allt í kakó í Eystri Rangá og áin var illveiðanleg í næstum þrjá daga. Það munar um að missa þrjá daga úr veiðinni og Ytri Rangá og Vestubakki Hólsár náðu toppsætinu þessa vikuna en við spyrjum að leikslokum. Þessa má þó geta að ef við teldum Austurbakka Hólsár með Eystri þá værum við enn vel yfir Ytri í toppsætinu.“

Einmitt, og hvernig hefði staðan verið þá? Ytri Rangá telur vesturbakka Hólsár með í sínjum tölum  og var með 2121 laxa síðasta miðvikudag. Á sama tíma var Eystri Rangá með 2052 laxa, en eystri bakki Hólsár er talin sérstaklega og var með 336 laxa á sama tíma. Ef þeir á eystri bakkanum teldu eystri bakka Hólsár með væri heildartalan þeirrra 2388. Áin væri þá enn hæst.

En hvað svo sem með það, þetta er í heildina séð fremur slakt sumar þó að gaman verði að sjá hvað árnar á vestanverðu landinu eiga mikið inni nú þegar skilyrði fara batnandi með haustinu. Í Rangárþingi er úr afar háum söðli að detta í Eystri Rangá sem skilaði risaveiði í fyrra eins og menn og konur muna, 9070 laxar veiddust og á sama tíma mætti bæta við 756 löxum sem veiddust frá eystri bakka Hólsár. Ytri Rangá er hins vegar á svipuðu róli og allra síðustu sumur, sem hafa verið langt að baki bestu sumrum þar. Áin fer örugglega yfir síðasta sumars tölu sína, 2642. Eða er nokkuð öruggt, tíminn leiðir það í ljós. Jóhann Davíð Kolskeggur telur að Eystri hafi burði til að fara nokkuð vel yfir 3000 laxa, en þorir ekki að vonast eftir meiru, sem er hreint ekki svo slæmt þó það sé ekki sama veislan og í fyrra,“ bætti Jóhann Davíð við.