Björn Einar Björnsson með 95 cm hæng af Hrauninu. Þessum var sleppt. Myndin er af FB síðu hóps áhugamanna um Elliðaárnar.

Alveg er þetta magnað og óvænt hvað mikið veiðist af stórlaxi í Elliðaánum í sumar. Menn muna vart annað eins, enda er gamli Elliðaárstofninn ekki þekktur fyrir stóra fiska og auk þess hefur engin sérstök áhersla verið lögð á sleppiskyldu á stórum löxum líkt og gert er í afar mörgum ám á Íslandi, nokkuð sem talið er að hafi fjölgað stórlöxum síðustu ár, en hnignun þeirra var um árabil alvarleg.

Í vikunni veiddi Björn Einar Björnsson 95 cm hæng á svarta Frances nr 14 á Hrauninu og þetta var ekki sá fyrsti. „Það eru allavega 12 laxar yfir 80 cm“ sagði Ásgeir Heiðar í skeyti til VoV er hann var spurður útí þessa furðu og hvort einhverjar kenningar væru á lofti um hvað stæði að baki. Auk umræddra 12 laxa er góður slatti um og yfir 70 cm sem er stórlaxaviðmiðið þar sem stórlaxi er sleppt.

S.l. miðvikudagskvöld hafði 446 löxum verið landað úr Elliðaánum, nokkru minna en á sama tíma í fyrra, en allgott miðað við dapurt gengi nær allra laxveiðiáa á vestanverðu landinu. Í fyrra veiddust 960 laxar og á bilinu 2006 til 2017 veiddust í ánum á bilinu 457 laxar og uppí 1457. Fjórum sinnum á þessum árum fórveiðin í fjögurra stafa tölu og þrisvar yfir 900 stk. Flest ef ekki öll þessi ár voru stórlaxar verulega fáséðir og jafnvel þegar best veiddist voru alvöru stórlaxar teljandi á fingrum annarrar handar. Þessi statistík er því mjög óvænt og dularfull!

Sem fyrr segir er engin sérstök áhersla á að hlífa stórlaxi í Elliðaánum, utan að í september skal öllum laxi sleppt og aðeins veitt á flugu. Í veiðireglum segir einungis að kvóti séu tveir laxar, síðan megi veiða og sleppa og sjálfgefið að þá sé maðkinum lagt. Nokkrir af stærstu löxunum hafa verið drepnir, ekkert sem bannar það.