Eldvatn, vorkoma
Undurfalleg vorveiðimynd frá Eldvatni, tekið 2010.

Það er orðið æði stutt í nýja vertíð. 1.apríl nálgast óðfluga. Þá opna að venju fjölmargar sjóbirtingsár, en einnig slatti af veiðisvæðum með staðbundnum silungi. Okkur lék hugur á að vita hver staðan væri nú á þessum helstu sjóbirtingsslóðum í Vestur Skaftafellssýslu og heyrðum í Jóni Hrafni, einum af leigutökum Eldvatns í Meðallandi, sem er ein þeirra áa sem opna 1.apríl.

Jón sagði: „Aðstæður eru nokkuð góðar , ekki mikill snjór hérna niðrí Meðallandi , lítið frost í jörðu og rigning í kortunum. Ekkert annað að gera en að krossa putta og vona að veturinn klárist hérna fyrir opnun. Er nokkuð bjartsýnn á veiðina , töluvert af stórum sjóbirtingi gekk í Eldvatnið síðasta haust , en það bar lítið á geldfisknum. Vonandi lætur hann sjá sig í vor.“