Sannkallaður höfðingi úr Eyjafjarðará

Benjamín Þorri með hænginn glæsilega....

Það er farið að bera á risableikjunum sem Eyjafjarðará er þekkt fyrir. Ein slík var að koma á land í dag og talað er um að „svæði 5 „sé að fara í gang,“ en þar veiðast flestar stærstu bleikjurnar. Engin smásmíði sú sem hér birtist á mynd.

Það var Benjamín Þorri Bergsson sem veiddi þennan glæsilega sjóbleikjuhæng, 67 cm sem tók hina „virðulegu“ flugu Squirmy Wormy við brúna hjá Halldórsstöðum. Frásögn af þessum fiski var að finna á FB síðu Eyjafjarðarár og kom fram að Benjamín þurfti að elta hænginn 500 metra niður ána áður en hann hafði yfirhöndina. En yfirhöndin er bara hugtak, því þarna er sjóbleikju sleppt. En glæsilegur fiskur og vonandi að fleiri komi í kjölfarið, nú fer besti tíminn í Eyjafjarðará í hönd.