Birtingurinn stækkar ár frá ári í Leirá

Leirá
Fallegur birtingur úr Leirá vorið 2018.

Æ fleiri eru þeirrar skoðunar að V&S sé af hinu góða og æ strangari reglur í þágu verndar laxa eru við lýði í flestum laxveiðiám landsins. Flestir eru þó sammála um að árangur V&S sést best þar sem þeirri veiðiverndaraðgerð er beitt gagnvart sjóbirtingi. Enda lifir hann mun lengur en frændi hans laxinn og hann kemur oft til hrygningar….ef hann er ekki sleginn í hausinn.

Lítil spræna á Vesturlandi hefur dottið inn í umræðuna síðustu 2-3 árin. Það er Leirá í Leirársveit. Iceland Outfitters tóku hana á leigu og skelltu strax á drápsbanni. Í ánni er bæði lax og birtingur. Oftar en ekki er birtingurinn liðfleiri, en það eru samt áraskipti. Eins og árferðið var 2019 var vart að áin rynni þangað til í september, en 2018 var gott vatn allt sumarið. En hvernig sem því er háttað, þá hafa menn strax séð mun á gengi sjóbirtings í ánni.

Iceland Outfitters samanstendur af hjónunum Hörpu Hlínar Þórðardóttur og Stefáns Sigurðssonar. Við hittum Stefán á ráðstefnu Strengs og INEOS um framtíð laxins í vikunni og ræddum við hann um Leirá. Hann hafði þetta að segja: „Þegar við tókum við ánni var talsvert af birtingi en þeir stærstu fyrsta sumarið voru tæplega 60 cm og vænu fiskarnir 50-55 cm. 2018 var strax komin breyting, þá fórum við að sjá talsvert af 60-70 cm birtingum og í fyrra var bara talsvert af 65-75 cm og þeir stærstu komnir í 85 cm, algjör tröll.“ Ef þetta er ekki ávísun á hvaða gildi það hefur að sleppa sjóbirtingi þá veit ég hvað,“ sagði Stefán í þessu samtali við VoV.